„Við vorum með beiðni til ráðuneytisins um að það yrði stofnaður vinnuhópur til þess að marka einhverja framtíðarstefnu varðandi grjótkrabba,“ segir Davíð Freyr Jónsson hjá Royal Iceland. Sú beiðni hafi legið fyrir í um eitt og hálft ár og loks verið svarað með synjun um miðjan ágúst.

Í svari matvælaráðuneytsins segir að vaxandi ásókn sé í grjótkrabba. Hafrannsóknastofnun hafi ekki veitt ráðgjöf um ráðlagðan heildarafla í einstökum krabbategundum og að veiðistjórn á kröbbum sé háð leyfi frá Fiskistofu. „Ráðuneytið telur að ekki sé ástæða til að koma á vinnuhóp um veiðar á kröbbum, en mun fylgjast í samstarfi við Fiskistofu náið með þróun sóknar í veiðar á grjótkrabba.“

Hvatar til grjótkrabbavinnslu afar óljósir

Svar matvælaráðuneytisins segir Davíð þýða að hvatarnir fyrir menn að stunda veiðar á grjótkrabba og sinna nýtingu þessarar auðlindar séu mjög óljósir.

„Þetta er svarið við beiðni okkar um að auka fyrirsjáanleika við þróun veiða á grjótkrabba,“ segir Davíð. „Það sést hér að í augum ráðuneytisins þarf ekki skýrari reglur eða hvata til veiðanna, þetta sé allt í góðum málum.“

Málið sé því áfram fast í sömu sporum. Menn telji áhættuna í þessu of mikla. „Annars væru fleiri farnir af stað,“ bendir Davíð á.

Þegar rætt var við Davíð í Fiskifréttum í maí síðastliðnum sagði hann frá því að Royal Iceland hefði haldið sig til hlés varðandi grjótkrabbaveiðar í þrjú ár og þannig fengið svigrúm til að þróa vinnsluaðferðir.

Tæknin enn í þróun

„Við erum ekki komnir á þann stað að við séum tilbúnir að fjöldaframleiða í miklu magni,“ segir Davíð um stöðuna á tæknihliðinni sem sé enn í þróun. Umhverfið sé mjög letjandi og því hefði verið gott að vinnuhópur færi yfir málið frá öllum hliðum.

„Það virðist vera stórkostleg ráðgáta í ráðuneytinu af hverju þetta getur ekki staðið af sjálfu sér eða þá að þar er enginn áhugi á þessu yfirhöfuð. Það er einn aðili upp á Akranesi sem er tilbúinn að veiða en við höfum ekki verið spenntir að taka frá honum því við erum að klára heimavinnuna. Auðvitað vonumst við til að finna lausnir þannig að við getum keypt krabba á næsta ári,“ segir Davíð.

Mönnum liggi þó ekkert á meðan hvatarnir í kerfinu séu engir. „Það er náttúrlega reiðarslag að fá þetta áhugaleysi frá ráðuneytinu. Það hefur slegið okkur aðeins aftur á bak. Enn þetta hlýtur að koma – einhvern tímann.“

„Við vorum með beiðni til ráðuneytisins um að það yrði stofnaður vinnuhópur til þess að marka einhverja framtíðarstefnu varðandi grjótkrabba,“ segir Davíð Freyr Jónsson hjá Royal Iceland. Sú beiðni hafi legið fyrir í um eitt og hálft ár og loks verið svarað með synjun um miðjan ágúst.

Í svari matvælaráðuneytsins segir að vaxandi ásókn sé í grjótkrabba. Hafrannsóknastofnun hafi ekki veitt ráðgjöf um ráðlagðan heildarafla í einstökum krabbategundum og að veiðistjórn á kröbbum sé háð leyfi frá Fiskistofu. „Ráðuneytið telur að ekki sé ástæða til að koma á vinnuhóp um veiðar á kröbbum, en mun fylgjast í samstarfi við Fiskistofu náið með þróun sóknar í veiðar á grjótkrabba.“

Hvatar til grjótkrabbavinnslu afar óljósir

Svar matvælaráðuneytisins segir Davíð þýða að hvatarnir fyrir menn að stunda veiðar á grjótkrabba og sinna nýtingu þessarar auðlindar séu mjög óljósir.

„Þetta er svarið við beiðni okkar um að auka fyrirsjáanleika við þróun veiða á grjótkrabba,“ segir Davíð. „Það sést hér að í augum ráðuneytisins þarf ekki skýrari reglur eða hvata til veiðanna, þetta sé allt í góðum málum.“

Málið sé því áfram fast í sömu sporum. Menn telji áhættuna í þessu of mikla. „Annars væru fleiri farnir af stað,“ bendir Davíð á.

Þegar rætt var við Davíð í Fiskifréttum í maí síðastliðnum sagði hann frá því að Royal Iceland hefði haldið sig til hlés varðandi grjótkrabbaveiðar í þrjú ár og þannig fengið svigrúm til að þróa vinnsluaðferðir.

Tæknin enn í þróun

„Við erum ekki komnir á þann stað að við séum tilbúnir að fjöldaframleiða í miklu magni,“ segir Davíð um stöðuna á tæknihliðinni sem sé enn í þróun. Umhverfið sé mjög letjandi og því hefði verið gott að vinnuhópur færi yfir málið frá öllum hliðum.

„Það virðist vera stórkostleg ráðgáta í ráðuneytinu af hverju þetta getur ekki staðið af sjálfu sér eða þá að þar er enginn áhugi á þessu yfirhöfuð. Það er einn aðili upp á Akranesi sem er tilbúinn að veiða en við höfum ekki verið spenntir að taka frá honum því við erum að klára heimavinnuna. Auðvitað vonumst við til að finna lausnir þannig að við getum keypt krabba á næsta ári,“ segir Davíð.

Mönnum liggi þó ekkert á meðan hvatarnir í kerfinu séu engir. „Það er náttúrlega reiðarslag að fá þetta áhugaleysi frá ráðuneytinu. Það hefur slegið okkur aðeins aftur á bak. Enn þetta hlýtur að koma – einhvern tímann.“