Hjálmar Gunnar Guðbjörnsson, sem strandaði á bát sínum Bonny á skeri við Reykjanes í nótt segist hafa verið að reyna að koma talstöð sinni í lag þegar óhappið varð.

Hjálmar fór út til veiða um fjögur leytið í nótt og giskar á að óhappið hafi orðið um klukkan hálffimm.

„Ég var bara á siglingu á leiðinni út. Þá virkaði talstöðin ekki, ég heyrði í þeim en þeir ekki í mér,“ segir Hjálmar sem kveðst hafa verið að reyna að tilkynna sig til Landhelgisgæslunnar. Hann kveðst hafa snúið sér undan til að mæla rafmagnið því hann hafi haldið að talstöðin væri ef til vill ekki að fá nóg rafmagn.

„Allt í einu fann ég högg“

„Og ég var bara með bátinn á sjálfstýringu og fór þarna á sker. Sjálfstýringin hefur farið upp í landið á meðan ég var að snúa mér við. Allt í einu fann ég högg og var bara kominn upp á sker. Ég leit eitthvað undan og sjálfstýringin fór greinilega með mig upp í fjöru á einni eða tveimur mínútum, ég var náttúrlega á fimmtán, sextán mílum,“ lýsir Hjálmar sem telur sjálfstýringuna annað hvort hafa dottið út eða fengið lágt rafmagn.

„Ég var uppi á skerinu en svo flæddi og flæddi frá og hann rann náttúrlega út í sjó aftur með gat á bátnum,“ heldur Hjálmar frásögninni áfram. Björgunarsveitarmenn hafi komið á staðinn.

Vantað belgi og gatinu ekki rétt lokað

„Þeir gátu ekki bjargað bátnum af því að þeir voru ekki með neina belgi eða neitt. Þeir settu seglið fyrir gatið upp vitlaust og það virkaði ekki. Þetta er bara smá gat þarna framan á og þetta átti alveg að reddast. Ég var alveg bara sallarólegur og hélt að þetta væri allt í góðu. Ég ætla ekkert að vera álasa einum eða neinum, þetta gerðist bara í hasarnum að seglið bara fór ekki fyrir gatið og svo þegar hann rann út í þá fylltist allt af sjó,“ segir Hjálmar. Dælan björgunarsveitarmanna hafi ekki haft un dan og báturinn fyllst hægt og rólega.

Skerið er það nærri landi að Hjálmar gat komist frá borði. „Ég var að stökkva í og úr landi til þess að reyna að redda þessu,“ segir hann. Báturinn sé enn á skerinu.

Tryggingarnar nái ekki yfir tjónið

Hjálmar fór síðan með bát björgunarsveitarmanna af vettvangi. „Þeir sögðu við mig að þetta væri bara orðið tryggingamál núna og að ég hefði engin völd á þessu lengur. Þeir fóru með mig á sjúkrahús af því að ég fékk dálítinn skurð við augað,“ segir hann.

Úr því sem komið er kveðst Hjálmar telja ólíklegt að hægt verði að bjarga Bonny. „Hann var í gangi og ég gat keyrt hann aftur á bak og áfram þangað til það fylltist vélarrúmið. Núna er það náttúrlega allt komið á kaf. Þessi bátur er fjórar milljónir en það kostar örugglega sex, sjö milljónir að gera við hann,“ segir hann.

Það segir sig sjálft að um gríðarlegt högg er að ræða við Hjálmar. „Ég er búinn að leggja út eina og hálfa milljón til að gera þetta allt reddí,“ segir hann. Tryggingarnar dugi ekki fyrir þessu auk þess sem helmingur þeirra fari vísast í björgunarkostnað.

Þekkti hverja einustu skrúfu

„Þannig að þetta bara gjaldþrot,“ segir Hjálmar og minnir á að strandveiðivertíðin sé aðeins rétt byrjuð og tekjuöflun sumarsins þar af leiðandi mest öll eftir.

„Þetta er tapað fé. Ég er búinn að vera á þessum bát í sex ár og ég sé hrikalega eftir honum. Þetta var ekki gallalaus bátur en ég þekkti í honum hverja einustu skrúfu. Nú er sex ára starf horfið út af þessu slysi. En þetta fer í reynslubankann,“ segir Hjálmar Gunnar Guðbjörnsson.

Níunda útkallið á tveimur dögum

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu í morgun segir að klukkan hálf fimm hafi áhafnir björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein og björgunarbátsins Njarðar verið kallaðar út af stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, vegna strandveiðibáts sem hafi strandað á litlum hólma eða skeri, á móts við Litla Hólm, skammt norðan golfvallarins á Reykjanesi. Báturinn hafi lent upp í klettóttri fjöru.

„Þegar björgunarsveitir komu á staðinn hafði skipverji komist að sjálfsdáðum í land. Björgunarsveitir hófust handa við að reyna að bjarga bátnum, m.a. með því að koma fyrir belgjum og dæla úr honum, en talsverður sjór var þá kominn í hann.

Báturinn náðist svo af strandstað, en reyndist of skemmdur til að draga til lands og sökk.

Eftir að hafa hreinsað lausamuni sem flutu í kringum bátinn, var haldið til hafnar í Keflavík þangað sem komið var nú á áttunda tímanum. Skipverjinn var fluttur til aðhlynningar.

Þetta er níunda útkall á björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á síðastliðnum tveimur sólarhringum,“ segir í tilkynningunni.