„Ég get ekki sagt að maður sé sérstaklega bjartsýnn en maður náttúrlega vonast eftir því fá einhverjar heimildir,“ segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, um væntanlegar niðurstöður loðnuleiðangurs Hafrannsóknastofnunar sem hefst á fimmtudag.
Garðar segist einfaldlega sjá svipaðan tón í stöðunni gagnvart loðnunni og í fyrra þegar ekki var gefinn út loðnukvóti.
„Þó svo að ungloðnumælingin bendi til þess að það ætti að verða kvóti erum við að sjá að hún er svipuð og hún var árið áður. Við höfum alveg trú á því að það verði gefnar út heimildir en maður hefur svo sem engar væntingar um að þær verði miklar. Auðvitað hafa menn mismunandi tilfinningar og skoðanir í þessu en heilt yfir þá held ég að menn leyfi sér að vera hóflega bjartsýnir,“ segir Garðar.
Starfsfólkið treystir á loðnu
Annað ár í röð án loðnuvertíðar segir Garðar vitanlega mundu hafa slæm áhrif á greinina í heild. „Loðnan er náttúrlega gríðarlega stór póstur í okkar rekstri. Starfsfólkið er að treysta á þetta og samfélagið allt hér fyrir austan,“ segir hann.
Þátt loðnunnar í rekstri Loðnuvinnslunnar segir Garðar vera mjög breytilegan milli ára. Eðli málsins samkvæmt.
„Loðnuvinnslan er svo sem ekki með mjög miklar heimildir í loðnu en þetta hefur samt verið mjög stór póstur í okkar starfsemi. Við höfum verið að fá hráefni frá ytri aðilum; frá norskum og færeyskum bátum og getað orðið okkur úti um heimildir í uppboðspottum líka. Það er mjög sveiflukennt milli ára hvað það er umfangsmikið í okkar starfsemi,“ segir Garðar.
Skaðleg áhrif á markaðinn
Loðnuvinnslan er því öllu jafna að vinna miklu meira af loðnu en aflaheimildir fyrirtækisins segja til um. „Við höfum nokkrum sinnum verið stærsti framleiðandinn á loðnuhrognum á þessum vertíðum,“ segir Garðar. Enn sé til eitthvað af loðnuhrognum til að standa undir eftirspurn mörkuðum, jafnvel þótt ekki yrði af vertíð núna.
„En það er held ég ekkert mikið umfram það. Það sem er kannski alvarlegast í þessu er að það sárvantar frysta loðnu inn á markaðinn, sérstaklega inn á Asíu. Norðmenn hafa að einhverju leyti getað sinnt því í loðnuleysisárinu hjá okkur í fyrra en loðnan þeirra er bara smærri og gengur illa inn á þann markað. Það er gríðarleg eftirspurn á þeim markaði núna og mjög vont fyrir þann markað að það falli niður framleiðsla hér heima í ár þar sem Norðmenn hafa gefið út að það verður ekki loðnuvertíð þar í ár,“ segir Garðar. Áhrifin á eftirspurnina gætu orðið til lengri tíma. Það væri því virkilega slæmt ef það falli út ár í framboðinu.