„Sjanghæjaðu hana Sheng í viðtal. Hún er býsna merkileg kona. Miklu merkilegri en ég,“ var það fyrsta sem Guðmundur Kristjánsson hafnarstjóri sagði við blaðamann Fiskifrétta sem kom til að trufla hann í vinnunni dag nokkurn í nóvember. „Hún er master mariner, háskólamenntaður skipstjórnarmaður, og var skipstjóri á mjög stórum fraktara í Taívan.“
Sheng-Ing Wang kom fyrir nokkrum árum til Ísafjarðar til að læra haf- og strandsvæðastjórnun eftir að hafa verið árum saman skipstjóri á stóru gámaskipi. Upphaflega ætlaði hún ekki að vera eitt ár í námsleyfi á Íslandi, en svo kom covid. Hún hugsaði með sér að einhvern tímann myndi hún hvort eð er snúa til baka enda býr fjölskyldan þar, foreldrarnir og einn bróðir.
„Vegna covid hef ég ekki komist þangað oft en ég fór þó til Taívan á þessu ári og vona að ég geti komist þangað reglulega. Mig langar að vera þar alltaf þegar haldið er upp á nýárið, yfirleitt í lok janúar eða fyrri hluta febrúar.“
Umhverfisrannsóknir
Vorið 2020 varði hún meistaraprófsritgerð sína við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðin fjallaði um það hvernig skemmtiferðaskip sem koma til Ísafjarðar fylgja umhverfisviðmiðunum hvað varðar útblástur, olíugæði og fleira. Meðan hún var að vinna að lokaverkefninu leitaði hún til Guðmundar hafnarstjóra um samstarf og svo hittist á að Ísafjarðarhöfn var að á sama tíma að leita að skipstjóra í sumarafleysingar á hafnsögubátinn. Hún þáði starfið og vinnur enn hjá Ísafjarðarhöfn, stýrir hafnsögubátnum og sinnir öðrum hafnarstörfum, hæstánægð með umskiptin og segir að sér líði vel á Ísafirði.
Hún segir viðbrigðin þó hafa verið mikil. Í Taívan búa um 23 milljónir manna á 35.000 ferkílómetra svæði, sem er rétt ríflega þriðjungur Íslands að stærð. Ísafjörður er hins vegar lítið bæjarfélag þar sem flestir þekkjast og þótt hún sé ekki með aðra fjölskyldu hér en hundinn sinn, þá segist hún nánast líta á vini sína þar og kunningja sem fjölskylduna sína.
„Hér á ég stóra fjölskyldu. Mér finnst ég svo lánsöm að hafa komið hingað. En þetta er algerlega ný reynsla fyrir mig. Það er virkilega gott að búa hérna í smábæ. Ég hafði lengi búið í stórborg, allt mitt líf.“
Hún leiðrétti hafnarstjórann snarlega þegar hann sagði hana vera hafnsögumann: „Nei, hafnsögukona. Ekki maður!“ Og hló dátt enda jafnan stutt í hláturinn hjá henni.
Virtist spennandi
Áður en hún kom til Ísafjarðar hafði hún verið á sjónum í fjórtán ár, þar af fjögur ár sem skipstjóri á flutningaskipum. Lengst af á 30 þúsund tonna gámaflutningaskipi sem hún sigldi um heim allan, á hafnir í Asíu, Evrópu og á vesturströnd Ameríku. Oft í gegnum Súesskurð. En hvernig stóð á því að hún rambaði á Ísland og Háskólasetrið á Vestfjörðum?
„Mér fannst að ég þyrfti að læra eitthvað nýtt, afla mér meiri menntunar. Þannig að ég skoðaði hvaða skólar stóðu til boða. Einn í Noregi, annan í Finnlandi og einn í Hollandi, og svo þennan hér á Íslandi. Ég valdi hann vegna þess að námið var mjög áhugavert. Ég gat ekki hugsað mér að sitja bara á skólabekk og hlusta á fræðin. Þetta virtist spennandi.“
Sumt reyndist þó flóknara en hún hafði reiknað með, eins og hvernig í ósköpunum hún ætti að bera fram öll þessi einkennilegu íslensku orð.
„Svo eru engir strætisvagnar og engin lest. Svei mér þá. En það hefur verið sannkallað ævintýri að vera hér. Fólkið er svo yndislegt og það er svo gott að þekkja alla. Ég átti ekki von á því.“