Börkur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gærmorgun með um 1.000 tonn af makríl. Þá var nýlokið við að vinna tæp 1.800 tonn úr Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar þar sem rætt er við í Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra Barkar sem kveður aflann hafa fengist í íslensku lögsögunni.

Makrílinn góður og batnandi

„Við vorum um 150 mílur frá landinu þegar lagt var af stað til löndunar. Skipin eru hægt og bítandi að færa sig lengra og lengra í norðaustur og nú undir lokin vorum við alveg við Smugulínuna. Fiskurinn sem við erum með er góður og nú undir lokin var minni áta í honum en verið hefur. Það er staðreynd að fiskurinn batnar alltaf þegar líður á vertíðina,“ er haft eftir Hálfdani.

Skynsamlegt samstarf

Börkur er í veiðisamstarfi við fjögur önnur skip og segir Hálfan það ganga vel. „Þetta samstarf er skynsamlegt í alla staði við þær aðstæður sem ríkja við makrílveiðarnar,“ segir hann.

Hálfdani líst þokkalega á framhaldið.

Skiptir máli að halda vinnslunni gangandi

„Vinnslunni er haldið gangandi og það er það sem skiptir máli. Við vorum stoppaðir af við veiðarnar núna vegna þess að það var komið að þrifum í fiskiðjuverinu, en það er reglulega þrifið hátt og lágt. Gera má ráð fyrir að vinnslu á þessum 1.000 tonnum ljúki um hádegi á morgun og þá hefjast þrifin,” er haft eftir Hálfdani Hálfdanarsyni skipstjóra á Berki, á svn.is.