Eitt fyrirtæki, Brim hf., hefur ekki enn veitt mikilvægar upplýsingar og gögn sem Samkeppniseftirlitið óskaði var eftir í tengslum við yfirstandandi athugun á stjórnunar- eignatengslum fyrirtækja í sjávarútveg. Sagt er frá því í frétt frá Samkeppniseftirlitinu að dráttur á svörum frá Brim hafi óhjákvæmilega tafið rannsóknina.

„Eftir ítrekuð bréfaskipti hefur Samkeppniseftirlitið nú tekið ákvörðun um að nýta sér heimild sem kveðið er á um 38. gr. samkeppnislaga til þess að beita fyrirtækið dagsektum. Þannig er Brim gert að greiða dagsektir að upphæð 3.500.000 kr. á dag, þar til umbeðnar upplýsingar og gögn hafa verið afhent. Byrja dagsektirnar að reiknast eftir að fjórtán dagar eru liðnir frá ákvörðun um hana, í samræmi við 39. gr. samkeppnislaga.“

Nokkur fyrirtæki, þar á meðal Brim og Guðmundur Runólfsson hf., hafa gert athugasemdir eða fyrirvara við athugunina og gagnaöflun á grunni hennar. Einkum er gerð athugasemd við að Samkeppniseftirlitið og matvælaráðuneytið hafi gert samning sem veiti eftirlitinu fjárhagslegt svigrúm til þess að ráðast í athugunina. Í athugasemdum fyrirtækjanna er meðal annars leitt að því líkum að samningurinn dragi úr sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins.

Í yfirlýsingu sem Brim hefur sent frá sér segir að ekki sé ásættanlegt að matvælaráðherra, sem sé í pólitískri stefnumótun, geri samning við stjórnvald sem búi yfir umfangsmiklu rannsóknar- og sektarvaldi. Brim hafi í dag fengið afhent afrit af samningi ráðuneytisins og Samkeppnieftirlitsins þar sem fram komi m.a. að matvælaráðherra hafi heimild til þess að stöðva rannsókn eftirlitsins. Þetta þyki til marks um óeðlileg vinnubrögð.