Nýtt uppsjávarskip hefur bæst í flota landsmanna á lokametrunum á velheppnaðri loðnuvertíð. Þetta er skipið Christina S sem Samherji hefur keypt frá Fraserburgh í Skotlandi og heitir nú Margrét EA. Þetta verður fjórða Margrétin sem siglt hefur undir merkjum Samherja.

Skipið fer til veiða fljótlega og líklega þá í vestangönguna sem menn búast við að gangi hvað úr hverju inn í Breiðafjörðinn. Nýja Margrétin hefur fengið skráningu í Íslenska skipaskrá og skipaskrárnúmerið er 3038. Hún er 72 metrar á lengd og 14 metrar á breidd. Skrokkurinn var smíðaður í Sevastopol í Úkraníu 2007 en skipið svo klárað hjá Fitjar Mek. Verksted í Noregi 2008. Skipinu hefur verið einstaklega vel við haldið og vélin lítið keyrð, eða sem samsvarar 3,5-4 ára meðalkeyrslu á íslenskum togurum. Skoska útgerðin sem seldi Samherja skipið er með annað skip í smíðum khjá Karstensens Skipbsværft í Danmörku sem verður afhent síðar á þessu ári.

Margrét EA í Sundahöfn. FF MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON
Margrét EA í Sundahöfn. FF MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON
© Jón Páll Ásgeirsson (Jón Páll Ásgeirsson)

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, segir ákvörðunina um kaupin á skipinu ekki síst hafa komið til vegna þess hve seint viðbótaraukning í loðnu kom frá Hafrannsóknastofnun og hve mikið er enn óveitt. Það styttist í vertíðarlok en ennþá á Samherji talsvert óveitt af loðnu á þessari vertíð. Skipið mun svo auðvitað nýtast vel á öðrum uppsjávarveiðum sem nú eru nánast óslitnar allt árið.

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja.
Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja.
© BIG (VB MYND/BIG)

Kristján segir að kaupverðið verði ekki gefið upp. Hann telur að vandræðalaust verði að manna skipið enda fjölmargir sjómenn á Akureyri. Búist er við að skipið fari á veiðar fljótlega.

Margrét EA 710 er vel búið skip á allan hátt og aðalvélin hefur aðeins verið keyrð í 16.400 klukkustundir. Þrettán kælitankar eru í skipinu og rúma þeir samtals liðlega tvö þúsund tonn af fiski. Skipstjóri á Margréti EA 710 er Hjörtur Valsson.