„Þetta er alveg einstakt salt,“ segir Egill Þ. Einarsson, frumkvöðull og saltframleiðandi. Árið 2012 stofnaði hann ásamt félaga sínum, Helga Sigurjónssyni, fyrirtækið Arctic Sea Minerals sem framleiðir hollustusalt, sem hefur hlotið nafnið Lífsalt, úr hafsjó og jarðsjó á Reykjanesi. Saltið hefur þá sérstöðu ekki síst að natríummagnið er aðeins 40% af því sem er í venjulegu salt. Í staðinn er það hlaðið steinefnum á borð við kalíum, magnesíum og öll snefilefni sem finnast í hafsjó, sem Egill segir gera þetta salt töluvert hollara en annað salt.
„Það er ekkert svona salt til á markaðnum, og við erum með einkaleyfi á þessari framleiðsluaðferð. Svo erum við með aðgang að hráefnum sem aðrir hafa ekki aðgang að. Að vísu er víða hægt að komast í sjó en við erum með borholusjó sem er hreinni heldur en úthafssjórinn sem getur verið mengaður. Svo erum við með jarðsjó líka sem kemur frá jarðhitasvæðinu á Reykjanesi. Úr honum kemur kalíið sem er ein af ástæðum þess að við getum boðið upp á lágnatríumsalt. Við bætum við kalíum úr jarðsjó og lækkum þar með natríummagnið úr 100% niður í 40%. Það er sérstaða okkar salts. Svo er þetta sjávarsalt líka en inniheldur meira af öllum aukaefnum úr sjónum en hefðbundna sjávarsaltið.“
Ekkert einfalt
Egill segir að samfélaginu sé almennt ekki mikið rætt um ofneyslu á natríum, þótt talað sé um að saltneysla sé varasöm fyrir heilsu fólks. Það sé hins vegar ekkert einfalt að draga mikið úr saltneyslu.
„Salt er þó ekki sama og salt því það getur haft mismunandi samsetningu. Með því að nota lág-natríum salt eins og Lífsalts er hægt að draga verulega úr skaðlegum áhrifum natríums en viðhalda bragði og öðrum eiginleikum vörunnar. Það er þó ekkert auðvelt vegna þess að 75-80% af öllu salti sem við borðum kemur úr unnum matvörum. Það hefur svo mikið að segja fyrir gæði vörunnar að salta hann.”

„Ef þú kaupir til dæmis brauð þá finnurðu ekkert mikið saltbragð af brauðinu, en saltið er gífurlega mikilvægt í brauði. Það hefur áhrif á þéttleika (e.consistency) brauðsins eða hvernig brauðið er viðkomu og undir tönn. Það verður að vera hæfilega mjúkt, en ekki of mjúkt. Öll kjötvara þarf líka salt, bæði út af geymsluþoli og líka upp á þéttleikann. Salt er einnig mikilvægt til að halda vökva í vörunni og ef þú ert að framleiða skinku til dæmis þá þarftu að salta annars missir hún of mikinn vökva. Ekki er auðvelt að viðhalda þessum eiginleikum ef saltið er minnkað.“
Væri synd að hætta
Fyrirtækið er á ákveðnum tímamótum núna og var ákveðið að ráðast hópfjármögnun á Karolinafund til að tryggja áframhaldandi rekstur. Til þess að tryggja þessu verkefni framhaldslíf þyrfti að finna markaði erlendis, og þar horfir Egill meðal annars til Þýskalands og Bandaríkjanna.
„Þetta er búin að vera löng saga, langt og strangt ferli. Þess vegna þætti mér algjör synd ef þetta lognaðist út af vegna þess að við búum við einstakar aðstæður hér á Íslandi. Við erum með einn hreinasta sjó í heiminum, næga umhverfisvæna orku og aðgang að jarðsjó sem er einstakur á heimsvísu. Við erum að fara í þessa fjármögnun núna vegna þess að við þurfum að stækka,“ segir Egill.