„Við erum í ágætri veiði hérna úti fyrir Krísuvíkurbergi en það styttist í að við þurfum að sækja lengri út þegar loðnan veður hérna yfir allt,“ segir Júlíus Sigurðsson, skipstjóri á krókaaflamarksbátnum Sævík GK sem Vísir í Grindavík gerir út.

Loðna er nú gengin inn á landgrunnið skammt austan við Vestmannaeyjar. Stór hluti uppsjávarflotans hefur verið við loðnuveiðar út af Kötlu- og Mýrartanga. Júlíus segir að það gefist sennilega gluggi í einn til tvo róðra áður en loðnan sækir vestur fyrir Eyjar í átt að Reykjanesinu. Fljótlega eftir það dregur yfirleitt verulega úr línuveiði á þessu svæði. Þorskurinn líti ekki við krókunum og menn verða að sækja dýpra. Stundum gangi loðnan þó líka dýpra og þá verða miðin meira eða minna „menguð“.

„Ég heyrði í vini mínum á Jóni Ásbjörnssyni RE sem er að draga línu austan við Þorlákshöfn. Það var búið að vera mikið mok þar en það var steindautt hjá honum í morgun meðan við erum að fá 500-600 kg á bjóðið hérna út af Krísuvíkurbjargi.

Júlíus Sigurðsson skipstjóri Sævík. Mynd/aðsend
Júlíus Sigurðsson skipstjóri Sævík. Mynd/aðsend

Fimmti róðurinn í febrúar

Á þessum árstíma á góðum degi tekur Sævík um 14 tonn í kör með krapa. Um átta tíma tekur að draga lögnina og krókarnir eru 17 þúsund.

Sævíkin hefur verið mikið frá veiðum vegna veðurfars það sem af er árinu. Þótt 21 dagur væri liðinn af febrúarmánuði voru þeir einungis í sínum fimmta róðri í mánuðinum. Í venjulegu árferði ættu róðrarnir að vera orðnir 15 talsins.

„Líklega verða þeir ekki nema sex í þessum mánuði. Við förum á morgun [miðvikudag] og svo sýnist mér veðurútlitið þannig að það verði bara komin mánaðamót hjá okkur. Við höfðum náð 15 róðrum 18. janúar en þá þurftum við að fara að hægja á okkur út af kvótastöðunni. Við þurfum ekki marga róðra til viðbótar núna til þess að vera stopp út af skorti á þorskkvóta. Það veiðist ekkert annað hérna heldur en þorskur og ýsa.“

Hann segir þorskinn vel haldinn og einstaklega fallegan. Meðalþyngdin er líklega nærri 6 kílóum og fiskurinn er stútfullur af hrognum og lifrin stór.

Landað úr þessu sama róðri, alls um 8 tonn af vænum fiski sem fékkst rétt udan við Grindavík um miðjan mánuðinn.
Landað úr þessu sama róðri, alls um 8 tonn af vænum fiski sem fékkst rétt udan við Grindavík um miðjan mánuðinn.
© Jón Steinar Sæmundsson (Jón Steinar Sæmundsson)

Landað úr þessum sama róðri, alls um 8 tonn af vænum fiski sem fékkst rétt utan við Grindavík um miðjan mánuðinn. FF MYND/JÓN STEINAR SÆMUNDSSON

Júlíus Sigurðsson, skipstjóri á Sævík GK.