„Við vorum utarlega í Reyðarfjarðardýpinu. Það var fínasta veiði og við erum alveg sælir og glaðir,“ segir Arnþór Pétursson, skipstjóri á Hákoni ÞH, hinu nýja uppsjávarskipi Gjögurs, eftir fyrsta veiðitúrinn á skipinu.

Haldið var til veiða frá Eskifirði síðastliðinn laugardag og komið inn til löndunar á Höfn í birtingu í gær, þriðjudag. Arnþór segir að áhöfnin hafi notað túrinn til að stilla sig af gagnvart nýju skipi og læra á það. „Þetta var allt mjög gott og slípaðist bara betur og betur með hverju holi,“ segir hann.

Blönduð síld

Arnþór áætlar að aflinn sem komið var með landi hafi verið um níu hundruð tonn. „Þetta er fín síld, aðeins Íslandsblönduð. Þetta er um þrjátíu prósent Íslandssíld og sjötíu prósent norsk-íslensk síld,“ segir hann.

Síldin fer til verkunar hjá kinney-Þinganesi. „Þeir ætla að reyna að frysta stærri síldina og svo fer hitt í flapsa en þá er hún meira eins og saltfiskur í laginu. Svo er þetta oft unnið í roðflett flök og annað.“

Lokin nálgast nú í norsk-íslensku síldinni. Arnþór segir Færeyinga hafa verið mest allan nóvember í íslensku lögsögunni en Hákon snúi sér nú að Íslandssíldinni. Ætlunin sé að halda út aftur í kvöld.

Tækin fínstillt

„Það var fastákveðið frá upphafi að vera hérna nálægt landi ef það yrðu einhver vandræði þannig að nú förum við á Íslandssíld næst áttatíu-níutíu mílur vestur af Faxaflóa,“ segir Arnþór. Þetta verði vestur af Reykjanesi og norður undir Snæfellsnes.

Að sögn Arnþórs gekk þessi fyrsti túr þannig vel. „Það voru smá tæknilegir örðugleikar eins og alltaf er, það voru bara svona fínstillingar,“ segir hann. Það hafi þó ekki verið í tengslum við vélina en eins og kunnugt er þurfti hún aðhlynningu í Þórshöfn í Færeyjum eftir að bilun kom upp í henni á leið til Íslands á leið frá smíðastað í Danmörku. Vélin sé í góðum gír.

„Þetta er orðin svo mikil tækni og eins og gengur þarf að fínstilla tækin aðeins af. Það gekk bara mjög vel. Þetta var ekkert óeðlilegt og algjörlega í lágmarki. Tæknin er orðin svo góð að þú hringir bara í vin og hann reddar málunum,“ segir Arnþór og hlær.