Rýmingaræfing fór nýlega fram á starfsstöðvum Vísis í Grindavík. Æfingin var haldin samhliða því að aðgerðastjórn Grindavíkur hélt sína mánaðarlegu prófun á rýmingarflautum í Grindavík. Vísir heldur reglulega rýmingaræfingar með sínu starfsfólki þegar hættustig Veðurstofunnar fyrir Grindavík er orðið appelsínugult og líkur taldar á eldgosi á næstu dögum eða vikum.

Rýmingaræfingin gekk vel í alla staði, að því er segir á vef Síldarvinnslunnar, og tók frá rúmlega mínútu til rúmlega þriggja mínútna fyrir starfsfólk að rýma viðkomandi starfsstöð og safnast saman á söfnunarsvæði utan dyra.

Starfsfólk salthúss Vísis búið að rýma og komið á söfnunarsvæði framan við húsið.
Starfsfólk salthúss Vísis búið að rýma og komið á söfnunarsvæði framan við húsið.

Brunaviðvörunarkerfi var gangsett á hverri starfsstöð og gekk starfsfólkið þá á yfirvegaðan og skipulegan hátt til viðkomandi söfnunarsvæðis. Í kjölfarið voru síðan haldnir fundir með starfsfólkinu og farið yfir stöðuna og fjallað um nýtt hættumat Veðurstofunnar, sem er gefið út á hverjum þriðjudegi, og eldgosið sem er yfirvofandi. Það var Gísli Níls Einarsson öryggisráðgjafi sem hafði yfirumsjón með rýmingaræfingunni og fundunum.