Algengt er að það myndist gott samband, milli fisksala og viðskiptavina og þeir Aron Elí Helgson og Egill Makan eru á góðri leið með að ná upp slíkri stemningu eftir að þeir hófu rekstur síðastliðið haust í Fiskbúðinni Sundlaugarvegi 12. Meðan blaðamaður staldraði við í búðinni streymdu að kúnnar sem vildu vita allt um girnilega réttina í fiskborðinu og lýstu ánægju með að þessi starfsemi væri hafin á ný í hverfinu þeirra.

Búðin hafði verið lokuð um nokkurn tíma þegar og þeir Aron Elí Helgason og Egill Makan tóku við keflinu. Þeirfélagar ætla að stórauka úrvalið. Þeir hafa bætt við sig tveimur starfsmönnum, matreiðslumeistara og matreiðslumanni, sem ætla að þróa nýja línu í fiskréttum. Svo eru hugmyndir um að setja upp Fish&Chips-stað í breskum anda innan verslunarinnar.

Lítið brot af úrvalinu í Fiskbúðinni Sundlaugarvegi.
Lítið brot af úrvalinu í Fiskbúðinni Sundlaugarvegi.

Aron Elí segir að þeir hafi ekkert auglýst opnunina og treysti eiginlega bara á að gamli kúnnahópurinn til margra áratuga láti sjá sig á ný. Og það hefur heldur betur ræst úr því. Fiskbúð hefur verið rekin í húsinu á horni Sundlaugarvegar og Gullteigs frá árinu 1947 svo ræturnar ná djúpt. Þeir opnuðu síðastliðið haust en þá hafði búðin verið lokuð í um hálft ár. Þeir líta björtum augum á framhaldið en segja þetta ekki gerast af sjálfu sér heldur kalli á mikla viðveru og vinnu.

Lítil rýrnun – mikil nýtni

Þeir hafa ekki haft mannskap eða aðstöðu til þess að kaupa hráefnið á fiskmarkaði heldur fá hann sendan til sín frá vinnslum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er kostnaðarsamara en að kaupa á markaði og eitt af því sem stendur til að breyta með bættri aðstöðu í húsinu. Það sem fer í gegnum húsið er hátt tvö tonn á mánuði. Rýrnun er afskaplega lítil og nýtnin mikil enda um dýrt hráefni að ræða.

Ýsa og ýsa í raspi stendur ávallt fyrir sínu og bleikjan hefur sótt mikið á í vinsældum. Aron Elí segir greinilegan kynslóðamun í eftirspurninni. Yngra fólk sæki meira í tilbúna rétti í marineringu eða sósum meðan þeir eldri velji fremur rauðsprettuflök eða lönguhnakka, svo eitthvað sé nefnt. Aron Elí segir að samsetningin á kúnnahópnum sé gróflega sú að 30% tilheyri „yngri kynslóðum“ og 70% þeim eldri. Þeir eldri komi tvisvar til þrisvar í viku að kaupa fisk en þeir yngri í mesta lagi einu sinni í viku. „En svo sjáum við allt þar á milli og meðal annars yngra fólk sem biður um hrogn. Það er augljóst að þeir sem hafa alist upp við slíkan mat vilja eiga kost á því að elda hann þegar þeir fara sjálfir að kaupa í matinn.“

Reykt ýsa er alltaf vinsæl og hún er alltaf til á Sundlaugarveginum en siginn fiskur hefur þurft að láta undan síga í vinsældum. Þeir eiga hann þó alltaf til í frosti. Útvatnaður saltfiskur selst alltaf vel og margir spyrja eftir gellum og þorskkinnum. „Við erum með mjög blandaðan kúnnahóp. Hingað kemur fólk sem er nýflutt í nýja hverfið á Kirkjusandi í bland við eldri íbúa í grónari hlutum nágrennisins, fólk á níræðisaldri og allt þar á milli.“