Byggðarráð Norðurþings gerir alvarlegar athugasemdir við úthlutun byggðakvóta og vill endurskoðun þannig að Raufarhöfn fái hámarksúthlutun sem er 285 tonn en ekki aðeins óbreyttan kvóta milli ára upp á 164 tonn.
Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar og varaformaður byggðarráðs Norðurþings, segir að á meðan almenni byggðakvótinn standi í stað hafi sértæki byggðakvótinn til Raufarhafnar dregist saman. „Sértæki kvótinn var í kringum 500 tonn þegar verkefnið um sértæka úthlutun byrjaði. Hann er kominn í um það bil 450 til 460 tonn í dag. Þetta finnst mér alveg fatalt,“ segir hann.
Þurfi bara kjark hjá Fiskistofu og ráðuneytinu
Hjálmar segir hugsunina að baki almenna byggðakvótakerfinu upphaflega í rauninni hafa verið þá sömu og að baki sértæka kvótanum í dag.
„Persónulega finnst mér að það eigi að taka almenna kerfið og setja það allt í sértækan kvóta og setja það á staði þar sem þarf sannarlega byggðakvóta,“ segir Hjálmar og kveðst spyrja af hverju öflugir staðir eins og Sauðárkrókur og Ísafjörður fái byggðakvóta.
„Byggðakvóti á að vera tæki til að styrkja byggðirnar í þeim atvinnugreinum sem helst eru líklegar til árangri. Það er til dæmis Raufarhöfn þar sem á að vera að mínu viti fullur almennur byggðakvóti, 285 tonn. Punktakerfið leyfir það alveg, bara með rökum varðandi íbúafæð, atvinnusókn, skerðingu á þjónustu hins opinbera,“ segir Hjálmar. Til þessa þurfi aðeins kjark hjá Fiskistofu og matvælaráðuneytinu.
Sár saga sjávarbyggðanna
„Við vitum alveg að kvóti í almenna byggðakvótakerfinu hefur gengið kaupum og sölum síðastliðin ár – sem hann á ekki að gera. Það er bara ekki hugsunin á bak við byggðakvóta. Hugsunin er að styrkja byggðirnar, úthluta til sjávarbyggða þar sem þetta hefur einhver áhrif á byggðina,“ heldur Hjálmar áfram.
Í bókun byggðarráðs Norðurþings er nefnt að menn hafi verið að selja kvóta frá Raufarhöfn.
„Það er auðvitað óheppilegt þegar einstaklingar og fyrirtæki sem hafa undanfarna áratugi fengið úthlutun úr almenna kerfinu sjá sér síðan hag í því að selja kvóta burtu úr samfélaginu. Þá kemur þessi grundvallar spurning: Hver á kvótann; er það einstaklingurinn eða byggðarlagið? Þegar einstaklingur sem fengið hefur byggðakvóta í nokkur ár selur svo allan sinn kvóta úr byggðarlaginu er það bara saga Íslendinga og sjávarbyggða síðastliðin ár. Það er sárt,“ segir Hjálmar.
Strandveiðisjómaður ekki það sama og strandveiðisjómaður
Þótt þessi kvótasala frá Raufarhöfn hafi ekki verið á stórum skala skipti hún máli. Allt sem gerist í svo smáu byggðarlagi vegi þungt.

„Þetta er sannarlega brothætt byggð og það er ekki gott að sérstaklega sértæki kvótinn er að dragast saman. Þá gætu menn notað almenna kerfið þannig að það er lágmarks krafa okkur að almenna kerfið bæti upp það sem er að dragast úr sértæku úhlutuninni.“
Norðausturland hefur borið skarðan hlut frá borði í strandveiðikerfinu eins og það hefur verið undanfarin ár. Hjálmar Bogi kveðst ekki viss um að það muni lagast með boðuðum breytingum á kerfinu. Óskynsamlegt sé að taka af sértæka og almenna byggðakvótanum til að setja í strandveiðar.
„Í mínum huga er strandveiðisjómaður ekki það sama og strandveiðisjómaður. Sumir vilja fara bara stutt út og fara á ólympískar veiðar; veiða eins mikið og þeir geta á mjög stuttum tíma og sækja ekki endilega besta hráefnið á meðan aðrir fara af meiri metnaði og sækja betra hráefni,“ segir Hjálmar. Áríðandi sé hins vegar að sem fyrst verði dregin upp mynd af breyttu kerfi.
Háð sértæka kvótanum
„Á þetta að vera svæðisskipt eða ekki? Hér voru hér fimm bátar á síðasta fiskveiðiári sem völdu í strandveiðikerfinu að fara frá Raufarhöfn og fóru ýmist á Snæfellsnes eða á suðurfirðina á Vestfjörðum. Þá komu náttúrlega ekki tekjur inn á höfnina og þá kom ekki starfsfólk til að vinna því þá kom sá fiskur ekki að landi til að vinna úr honum,“ segir Hjálmar. Sértæki kvótinn eigi að tryggja fiskvinnsla á Raufarhöfn.
„Ef sértæki kvótinn væri ekki er ekki víst að það væri fiskvinnsla þar. Og hún er undirstaða atvinnulífs á Raufarhöfn og þar með byggðarinnar. Því mun meiri ástæða og það hlýtur að vega þyngra í kerfinu er að setja þar meiri sértækan kvóta. Þar á að vera svona átta hundruð til þúsund tonna byggðakvóti því það myndi samræmast markmiðum sértækrar kvótaúthlutunar.“