Björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði hefur tekið í notkun nýja björgunarbátinn Hafdísi sem er hannaður af íslenska bátahönnunarfyrirtækinu Rafnar og smíðaður í Noregi.

Báturinn er með tveimur 300 hestafla utanborðsmótorum og ganghraðinn mestur 40 hnútar.
Báturinn er með tveimur 300 hestafla utanborðsmótorum og ganghraðinn mestur 40 hnútar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Báturinn er reyndar fyrir nokkru kominn til landsins en bið hefur orðið á því að þar til bær yfirvöld gæfu út haffærisskírteini. Nú er báturinn kominn með haffærisskírteini til bráðabirgða og ekkert til fyrirstöðu að taka hann í notkun.

Óskar Guðmundsson, formaður sjóbjörgunardeildar björgunarsveitarinnar Geisla, segir það tímamót að hafa nú yfir að ráða lokuðum bát sem getur tekið á móti áhöfnum flestra fiskiskipa.

Óskar Guðmundsson.
Óskar Guðmundsson.

Sem kunnugt er stendur nú yfir endurnýjun á björgunarskipaflota Landsbjargar. Þar er ætlunin að ný skip komi í stað þrettán björgunarskipa sem flest eru af Arun Class gerð og fengust á gjafarverði frá Konunglegu Bresku Sjóbjörgunarsamtökunum (RNLI). Skipin eru smíðuð á árunum 1978 til 1990. Björgunarbátur Geisla er utan þessa verkefnis Landsbjargar og er einkaframtak björgunarsveitarinnar sem hefur notið mikillar velvildar fyrirtækja í Fjarðabyggð og Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Sá fyrsti til Gæslunnar

Þróun á smíði fyrsta Rafnarbátsins hófst í samstarfi við Landhelgisgæsluna árið 2011 og fékk stofnunin afhentan strandgæslubátinn Óðinn í júlí 2013. Í október 2015 fékk Hjálparsveit skáta Kópavogi afhentan 11 metra björgunarbát frá Rafnar og 2020 var komið að Björgunarsveitinni Ársæli. Bátarnir eru byggðir samkvæmt einkaleyfisvarðri hönnun Össurar Kristinssonar, stofnanda stoðtækjaframleiðandans Össurar, og voru í fyrstu smíðaðir hér á landi. Nú hefur smíðin flust til annarra landa.

Til reiðu búinn í Fáskrúðsfirði.
Til reiðu búinn í Fáskrúðsfirði.
© Óðinn Magnason (.)

Björgunarveitin Geisli keypti Rafnar björgunarbát árið 2016 en keypti hann aftur þegar smíði hófst á nýja bátnum. Liðsmenn sveitarinnar hafa því reynslu af þessum bátum og líkar vel. Sami skrokkur er á báðum bátunum en breytingar hafa verið gerðar á stýrishúsinu sem er nú breiðara og rúmbetra. Þá var byggt yfir framdekkið sem var opið á eldri bátnum. Þar eru nú eru vistarverur. Óskar segir þessar breytingar hafa í för með sér að nú sé hægt að taka á móti áhöfnum togara. Það fari vel um tíu manns í vistarverunni á framdekkinu og auðveldlega hægt að koma þar fyrir fleirum sé þéttar setið. Auk þess geta menn staðið í stýrishúsinu ef því er að skipta.

Með í ráðum við hönnunina

„Við getum því auðveldlega tekið á móti áhöfnum af flestum fiskiskipum án þess að illa fari um þá. Það gátum við ekki á eldri bátnum. Það hefur líka verið gaman að taka þátt í hönnunarferlinu því við vorum með í ráðum hvað varðar hönnunina frá fyrsta degi. Hugmyndir okkar um að hafa bátinn lokaðan voru svo unnar áfram með hönnuðum Rafnar og báturinn svo smíðaður,“ segir Óskar.

Fyrirtækið Rafnar er á Íslandi en það smíðar ekki lengur báta hérlendis en þjónustar engu að síður bátana hér. Hafdís var smíðuð í Noregi og Óskar segir að það hafi reyndar verið Íslendingar búsettir í Noregi sem unnu við smíðina.

Bátur af þessu tagi kostar ekki undir 100 milljónum króna en björgunarsveitin greiddi þó ekki þá upphæð fyrir hann þar sem gamli báturinn var tekinn upp í. Báturinn er með tveimur 300 hestafla utanborðsmótorum. Ganghraðinn getur náð rúmlega 40 hnútum sem samvarar 74 km hraða á landi sem eldri báturinn státaði einnig af. Reynslan af honum var enda sú að björgunarsveitin var jafnan talsvert á undan næsta viðbragði. Óskar segir að þetta skipti sköpum því það segi sjálft að það liggur alltaf mikið á þegar vandamál verða til sjós.

2 í smíðum fyrir björgunarsveitir á Íslandi

„Skrokklagið er mjög sérstakt og báturinn er mýkri í sjó en aðrir bátar af þessari stærð. Við höfum siglt á svona skrokk í að verða sjö ár og höfum því góða reynslu af honum í alls konar veðri. Það var aldrei neinn vafi í okkar huga að við myndum stefna að því að kaupa annan Rafnarbát.“

Rafnar hefur selt mikið af sams konar bátum erlendis og nú er verið að smíða tvo í Tyrklandi fyrir íslenskar björgunarsveitir, þ.e. björgunarsveitirnar á Flateyri og Húsavík. Þeir eru væntanlegir til landsins um áramótin.

Í björgunarsveitinni eru um 20 manns og Óskar segir litla nýliðun dálítið farið að há starfseminni. Sífellt þyngra reynist að fá yngra fólk til þess að taka að sér sjálfboðaliðastörf af þessu tagi og það eigi jafnt við um björgunarsveitir, íþróttafélög og annað. Hann vonast til þess að þessi þróunin snúist við sem fyrst.

„Þetta er fjárfesting sem björgunarsveitin hefði aldrei getað farið út í nema með því að eiga góða að. Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er langstærsti styrktaraðili okkar en fleiri komu líka myndarlega að málum eins og Fjarðabyggðarhafnir, Laxeldi Austfjarða og fleiri."