Hafrannsóknastofnunin í Noregi mun stýra tilraunaverkefnisem gengur út á að rækta bæði þara og kræklinga í vindmyllugörðum. Evrópusambandið hefur ákveðið að styrkja verkefnið og veitir til þess 8,2 milljónum evra næstu fjögur árin. Það samsvarar nærri 1.150 milljónum íslenskra króna.

Fjölmargir samstarfsaðilar koma að þessu, þar á meðal rannsóknarstofnanir og háskólar.

Erik-Jan Lock mun stýra verkefninu og er spenntur: „Eitt er víst, en það er að vindmyllugörðum mun fjölga,“ hefur norska Hafrannsóknastofnunin eftir honum. „Hvernig er best að nýta þau svæði sem þeir ná yfir? Verkefnið okkar snýst um að hefja tilraunarækt á þara og kræklingi á þremur svæðum þar sem nú eru vindmyllugarðar, og auk þess við eldisstöð þar sem regnbogasilungur er alinn.“

Vindmyllugarðarnir eru í Norðursjó og í Kattegat en eldisstöðin við Eistland.

Lock segir vonir standa til þess að þetta tilraunaverkefni geti orðið öðrum fyrirmynd. Mögulega geti þörunga- og kræklingasvæðið einnig nýst öðrum tegundum sem þar finni bæði fæðu og skjól í nýju vistkerfi.

Um þrjátíu ár eru síðan fyrstu vindmyllugarðarnir í hafi voru teknir í notkun út af ströndum Danmerkur. Síðan þá hafa vindmyllugarðar í hafi verið reistir við Kína, Japan, Þýskaland, Bretland, Bandaríkin og víðar. Veiðar og önnur nýting þessara svæða hafa sætt takmörkunum, en með þessu verkefni á að bæta úr því.

Hér á landi hafa verið uppi hugmyndir um að hefja kræklinga- og þararækt við laxeldisstöðvar, eins og fjallað hefur verið um í Fiskifréttum.