Vaxandi áhugi hefur verið undanfarin ár á svonefndri fjölkerfaræktun í tengslum við laxeldi hér á landi. Með fjölkerfaræktun, sem nefnist Integrated multi-trophc aquaculture á ensku, eða IMTA, er átt við að í næsta nágrenni við fiskeldiskvíar sé stunduð bæði þararækt, skeldýrarækt og fleira sem hentar í sambýli við laxeldi.

Gunnar Ólafsson, forstöðumaður Djúpsins, hefur síðastliðinn ár verið ötull málsvari þess að ráðast í slíka fjölkerfarækt hér við land og ræddi þau mál á ráðstefnunni Lagarlíf nýverið.

Stórþörungar hreinsa

„Það hefur alltaf verið stefnan að nýta stórþörungana til að draga úr þeirri umframnæringu sem eftir verður í tengslum við fiskeldið. Hægt er að færa mjög sterk rök fyrir því að það þurfi bara ákveðið mörg kíló af þara til að hreinsa upp allt af ammoníaki og nítrógeni og öðru sem verður eftir,“ segir Gunnar í spjalli við Fiskifréttir.

Meginhugmyndin er sem sagt sú að nýta þá umframnæringu sem skapast í fiskeldi til þess að rækta og nýta aðrar tegundir. Um leið losnar fólk við þann hvimleiða úrgang sem safnast upp undir eldiskvíunum.

„Í fjölkerfaræktun er leitast við að skapa samlífi þeirra tegunda sem ræktaðar eru saman. Sjókvíaeldi, þörungarækt og skelfisksrækt eru þannig það mengi sem við höfum verið að skoða með okkar stöðu í huga og er það afar fýsilegur kostur í sjó.“

Tilraunir í Dýrafirði

Tilraunir voru gerðar í Dýrafirði árið 2019, að sögn Gunnars til þess fyrst og fremst að staðfesta kenningar um aukið næringarframboð vegna sjókvíaeldis. Sú staðfesting fékkst, en Djúpið stóð að þessum rannsóknum í samstarfi við Eldey Aqua og Arctic Fish.

  • Gunnar Ólafsson, forstöðumaður Djúpsins. MYND/Aðsend

„Sýnt þótti að nægilegra áhrifa gætti frá sjókvíaeldi til að feta nánar þá braut að rækta í námunda við þau svæði,“ segir Gunnar. „Í slíkum niðurstöðum eru fólgin allnokkur tækifæri sem gaman verður að halda áfram að kortleggja á komandi árum.“

Lagarammann vantar

Gunnar segir Ísland hafa alla möguleika á að marka skýra umhverfisstefnu í málefnum þörungaræktar.

Lagaumhverfið fyrir þörungarækt sé hins vegar skammt á veg komið og það hafi verið hamlandi á margan máta. Erfitt sé að leggja út í fjárfestingar ef leyfisveitingar eru ekki í myndinni vegna þess að lagalegar forsendur skorti.

„Skýr skilgreining ræktunar frá nytjum er nauðsynleg og hafa verið fluttar tillögur þess efnis undanfarin ár en ekki komist í gegn,“ segir hann.

„Ekki er ónýtt að geta aukið við gildi hinna ágætu netalaga þannig að hlunnindi landeigenda séu tryggð með ræktunarstarf í huga.“

Spennandi möguleikar

Gunnar segir þörungana mjög spennandi enda eru þeir mjög fjölbreyttir.

„Skelfiskur ræktaður við sjókvíaeldi er næringarríkur og eru fjölmargir möguleikar þar fyrir hendi sem enn á eftir að kortleggja að fullu leyti. En virði hans ekki bara fólgið í próteini heldur er skelin allnokkuð spennandi. Kítínvinnsla með lífmeltu er einmitt eitt það sem hefur verið skoðað í Djúpinu.“

Margir aðrir möguleikar séu fyrirsjáanlegir verði haldið af stað í þessa vegferð.

„Það eru fjölmargir þræðir sem geta komið upp úr djúpinu sem enn eru ókunnir en innan þörungaiðnaðar er margt spennandi. Inni hjá okkur í Djúpinu er verkefni sem lýtur að gerð líf-plasts úr alginati og er það eitthvað sem gæti verið spennandi fyrir svæði þar sem orka er aðgengileg.“

Gunnar tekur fram að landeldi sé vissulega með í myndinni þegar kemur að fjölkerfaræktun.

„Jarðhita má nýta til að skapa jafnvel ólík vistkerfi og þannig auka möguleika á vexti eða jafnvel skapa skilyrði sem annars væru illmöguleg á okkar svæði. Vissulega má finna galla á þessu sem og öðru en það eru sannarlega fleiri græn ljós en rauð sem af þessu lýsa.“

Djúpið

Djúpið er sköpunarsetur í Bolungarvík og á Ísafirði sem hefur verið í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og önnur rannsóknarsetur og fyrirtæki, bæði innlend og erlend.

„Við höfum við fengið mikinn stuðning frá okkar landshlutasamtökum, Bolungarvíkurkaupstað, styrkjaumhverfi og Vestfjarðastofu,“ segir Gunnar.

„Við fáum að vera hluti af rannsóknum, þróun og umræðu og spinnast hin ólíklegustu verkefni út frá okkur vegna þess. Mikill hluti þeirra framfara sem nú eiga sér stað á vestfjörðum er vegna spennandi samstarfs Háskólaseturs Vestfjarða og þeirra fræða og rannsóknarsetra sem hér eru þar sem rannsóknir á sértækum lausnum dreifðari byggða fara fram.“