„Við stefnum að því fyrir að minnsti kosti sum þessara svæða að koma með ráðgjöf í vor,“ segir Jónas Páll Jónasson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, um stöðuna gagnvart þeim svæðum þar sem stundaðar hafa verið tilraunaveiðar á ígulkerjum síðustu árin.

Jónas segir nokkuð flókið að veita ráðgjöf um ígulker. Bæði séu veiðarnar takmarkaðar og upplýsingar því af skornum skammti og eins þurfi að taka tillit til mismunandi búsvæða á veiðislóð sem sé ekki vel þekkt.

800 tonn fyrir þrjátíu árum

Royal Iceland gerir Báru SH út frá Rifi á ígulker og Sæbjúgu. Mynd/Royal Iceland
Royal Iceland gerir Báru SH út frá Rifi á ígulker og Sæbjúgu. Mynd/Royal Iceland

Fyrir um þrjátíu árum segir Jónas að veiðin verið um 800 tonn yfir tvö ár og var þá veitt nokkuð víða. Kvóti hefur lengi verið gefinn út í  Breiðafirði og hann er nú um 200 tonn. Að auki eru að sögn Jónasar veidd um 150 tonn á tilraunasvæðum í Ísafjarðardjúpi, í Húnaflóa og á Austfjörðum. Fyrir austan er veitt í nokkrum fjörðum, fyrst og fremst í Reyðarfirði. Veiðin fer fram innarlega í Húnaflóa; í Steingrímsfirði og fjörðunum þar fyrir sunnan.

„Þar höfum við stikað af svæði með kalkþörungum þar sem ekki er ráðlagt að stunda tilraunaveiðar. Þar eru viðkvæm búsvæði sem við viljum ekki raska að óþörfu,“ segir Jónas.

Markmiðið með tilraunaveiðinni er vitanlega að leiða til ákvörðunar um framhald veiðanna. Jónas segir að taka nokkur ár að afla upplýsinga til að hafa grundvöll til ráðgjafar.

Mörg svæðin eru nokkuð viðkvæm

Ígulker eru ein þeirra tegunda sem Hafrannsóknastofnun gefur út ráðgjöf fyrir annað hvert ár. Síðast var gefin út ráðgjöf á árinu 2023. Ráðgjöfin núna mun í fyrsta sinn ná til hluta þessara tilraunasvæða. Í því felast miklir hagsmunir fyrir fyrirtækin tvö sem stund veiðarnar, Þórishólma og Royal Iceland.

„Það verður meðal annars að horfa til þess að mörg þessi svæði eru nokkuð viðkvæm. Við reynum sér í lagi að forðast svæði þar sem er kalk-eða kóralþörung er að finna og að það sé ekki sé togað inn á þeim svæðum,“ segir Jónas. Einnig sé fylgst með afla á sóknareiningu.

Átu þaraskóg í Eyjafirði

„Það tekur dálítinn tíma að byggja upp þekkingu og fá upplýsingar. Við vorum fyrst að horfa til þriggja ára en það er eiginlega of lítið en við munum veita ráðgjöf í vor varðandi fleiri svæði,“ segir Jónas.

Að sögn Jónasar hafa Norðmenn skoðað aðferðir til að halda ígulkerjastofninum niðri, til dæmis með því að auka magn steinbíts til að vernda þaraskóga í formi aukins afráns.

„Ígulkerin geta tekið yfir og étið upp allan þaraskóginn. Þetta er mjög flókið samspil,“ segir Jónas. Í Eyjafirði hafi fyrir nokkrum áratugum þaraskógurinn horfið að mestu á ákveðnum svæðum. „Þar var eiginlega yfirtaka af ígulkerjum.“