Hafrannsóknastofnun vinnur að skipulagningu loðnuleitar í desember og janúar á næsta ári í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Að sögn Þorsteins Sigurðssonar, forstjóra stofnunarinnar, hefur samist um að útgerðin leggi til eitt uppsjávarskip sem taki stöðuna í desember og Hafrannsóknastofnun leggi til mannskap. Í janúar er síðan gert ráð fyrir að Bjarni Sæmundsson HF og Árni Friðriksson HF haldi til loðnumælinga á grundvelli stöðutökunnar í desember og jafnvel er ekki útilokað að nýtt rannsóknaskip, Þórunn Þórðardóttir HF, taki þátt í mælingunni verði það komið til landsins og Bjarni Sæmundsson detti þá út.
Gæti teygt sig undir ís
Í desember verður kannað hvort loðnu sé að finna í hafinu úti fyrir austurhluta Norðurlands. „Fyrir fram er talið nokkuð líklegt að loðnan gæti teygt sig undir ís. Við eigum því síður von á að ná nokkurri mælingu heldur er þetta fremur hugsað til þess að taka stöðuna og reyna að fá mynd af því hvar loðnan heldur sig á þessum tímapunkti svo við getum betur lagt mat á það hve snemma í janúar við þurfum að fara af stað,“ segir Þorsteinn.
Vantar peninga í vöktun
SFS hefur sagt að engir fjármunir séu til reiðu hjá Hafrannsóknastofnun til þess að fara út að leita í desember og fjármagn til leitar í janúar sé af skornum skammti. „Ætli það vanti ekki upp á um 100 milljónir króna eða svo, ef vel ætti að vera,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna.
Þorsteinn segir það vissulega rétt að það vanti peninga í svona vöktun en í drögum sem unnið er að hjá stofnuninni, þar sem byggt er á nýlega samþykktum fjárlögum, sé miðað við að haldið verði úti loðnuleit í alls 45 daga í janúar og febrúar.
Prófanir á nýja skipinu
Óvissa ríkir einnig með áhafnarmál hjá Hafrannsóknastofnun því ráðgert er að sigla Þórunni Þórðardóttur HF heim síðla í desember og þarf að senda áhöfn í þeim tilgangi til Spánar þar sem skipið er smíðað. „Að fenginni reynslu er ekki ólíklegt að smá seinkun verði á afhendingu skipsins og það þarf ekki nema hálfsmánaðar seinkun til þess að skipið verði ekki hér fyrr en í janúar.“
Til stendur að áhöfn haldi til Spánar eftir u.þ.b. hálfan mánuð til að taka þátt í prófunum á skipinu og til þess að læra á ný rannsóknartæki. Þannig verður tryggt að hægt verði að taka skipið strax í notkun við heimkomu.
Samvinna við útgerðina
Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafró, segir að um samvinnuverkefni verði að ræða hjá stofnuninni og útgerðinni, þ.e.a.s. að útgerðin muni útvega skip og koma að mælingum með svipuðum hætti og áður hefur verið gert.
„Eitt veiðiskip fer í könnunarleiðangur í desember og það eru nokkur skip sem koma til greina. Það ræðst á næstu dögum hvaða skip það verður. Hvernig þessu vindur fram í janúar hvað varðar mælingarnar ræðst dálítið af útkomunni í könnunarleiðangrinum í desember, þ.e.a.s. hvort við förum af stað strax í byrjun janúar eða hvort við sjáum ástæðu til að fara ekki strax af stað. Mælingarnar verða gerðar á skipum Hafrannsóknastofnunar, hvort sem það verður Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson eða nýja skipið,“ segir Guðmundur.