Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur saltað vertíðarþorsk í tæp 80 ár. Þá hefur Grupeixe, sem er í 95% eigu Vinnslustöðvarinnar, aukið mjög söltun þorsks á undanförnum árum. Saman eru þessi fyrirtæki leiðandi á portúgölskum markaði við sölu og markaðssetningu á saltfiski. Í ljósi þessa hefur Vinnslustöðin tekið upp þá nýbreytni á sínum vinnustað í Vestmannaeyjum að bjóða upp á portúgalska saltfiskrétti í hádegishléi starfsfólks Vinnslustöðvarinnar. Þetta var gert síðastliðinn föstudag og var gerður góður rómur að þessu meðal starfsfólks.

Um matargerðina sáu þær Carlota Teigas (Carla) og Susana Sequeira eins og í vor þegar þetta var gert í fyrsta sinn hjá VSV.

Veislukokkarnir Susana og Carla.
Veislukokkarnir Susana og Carla.

Að þessu sinni buðu þær upp á Punheta de Bacalhau, sem er marineraður saltfiskur og Bacalhau com natas, sem er ofnbakaður saltfiskur í rjómasósu.

Í eftirrétt var svo afar góð ostaterta sem einnig á uppruna í Portúgal.​ Nánar er sagt frá þessu í máli og myndum á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Áhugasömum er bent á að leita á netinu að nöfnum réttanna til að fá uppskriftir og leiðbeiningar um matreiðslu þeirra.