Þótt komunnavertíð hafi því sem næst verið blásið af að þessu sinni er grænlenska uppsjávarskipið Polar Ammassak á leið til Neskaupstaðar með fullfermi eða 1.800 tonn.

Skipið kemur til hafnar á nótt og verður væntanlega landað úr því á morgun. Hér er um að ræða síðasta kolmunnafarminn sem berst til Síldarvinnslunnar í þessari veiðilotu, að því er fram kemur á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Þar er rætt við Guðmund Hallsson skipstjóra og hann spurður hvernig veiðin hefði gengið.

„Við vorum að veiðum austan við Færeyjar og fengum aflann í fimm holum. Það fengust á bilinu 250-400 tonn í holi. Veiðin hefur minnkað verulega að undanförnu og það var lengi dregið eða allt upp í átján tíma. Þróunin var í reynd sú í túrnum að holin lengdust og aflinn minnkaði. Þetta er síðasti túr hjá okkur í bili en það á að geyma einhvern kvóta fram á haustið. Kolmunnaveiðin að undanförnu hefur gengið afar vel. Við höfum að mestu landað aflanum í Færeyjum og í Skagen í Danmörku. Það tók langan tíma að fara til Skagen auk þess sem þar var löndunarbið. Næst á dagskrá hjá okkur er makrílvertíðin og nú verður skipið undirbúið fyrir hana,“ segir Guðmundur.