Áhöfnin á línuskipinu Páli Jónssyni GK, sem Grindvíkingar kalla gjarnan Konung línuveiðaranna, lauk kvótaárinu í síðustu viku með snörpum túr með einni millilöndun og var afraksturinn alls um 270 kör sem gera afla upp á um 86 tonn. Það var ekki heldur verið að bardúsa mikið í landi því þegar slegið var á þráðinn til Benedikts Páls Jónssonar skipstjóra voru þeir þegar komnir á miðin fyrir sunnan land.

Páll Jónsson GK kom nýr til landsins í byrjun árs 2020 og leysti þá af hólmi eldra skip með sama nafni. Skipið er sérhannað til línuveiða, 45 metra langt og 10,5 metra breitt, og var smíðað í Póllandi eftir teikningum íslensku skipahönnunarstofunnar Navis. Skipið og áhöfn þess lék stórt hlutverk í veruleikaþáttum Discovery sjónvarpsstöðvarinnar í Kanada um línuveiðar á Íslandsmiðum sem nefndust Ice Cold Catch og sýndir voru í fyrra.

„Við byrjuðum suður af Surtinum, þar sem er kallað að vera milli kapla. Við byrjuðum á því að leggja á Stórahraun suður af Surtsey en vörum okkur á því að halda okkur milli kapla,“ segir Benedikt og vísar þar í fjarskiptakapla sem liggja frá Íslandi til Evrópu.

Þarna voru þeir mest í löngu og segir Benedikt hægt að gera mjög góða túra í þorsk og ýsu á vertíðinni á þessi mið. Þetta er líka talsvert þekkt löngumið á þessum árstíma.

Benedikt Páll Jónsson skipstjóri. Mynd/aðsend.
Benedikt Páll Jónsson skipstjóri. Mynd/aðsend.

„Þetta hefur bara verið dúndurflott veiði og uppistaðan í þessu var langa,“ segir Benedikt. Í hverri lögn eru 47 þúsund krókar og þeir eru í sjó einungis meðan verið er að leggja eða í nálægt fjóra til fimm tíma. Beitt er að mestu smokkfiski. Í Páli Jónssyni er frystigeymsla fyrir um 17 bretti af beitu sem dugar í 7 til 8 lagnir.

Benedikt segir að nýliðið kvótaár hafi verið mjög gott og menn séu mjög sáttir. Alls nam afli Páls Jónssonar GK á kvótaárinu 4.140 tonn.

Kaldaskítur á miðunum

„Við erum bara sáttir við afraksturinn við strákarnir á Páli en þetta gerist ekki að sjálfu sér. Fiskverð hafa verið góð eða bara eins og þau eiga að vera. Það er gríðarleg vinna á bak við þetta og þetta gerist ekki nema með góðri áhöfn. Svo lítur upphaf nýs fiskveiðiárs vel út með hörkugóðri byrjun. Vonandi er það forsmekkurinn að því sem koma skal,“ sagði Benedikt sem var að leggja norðan við Kötlugrunnshólf og stefnan að ná blönduðum afla í næstu túrum.

Benedikt segir allan gang á því hvernig aflinn er unninn í landi. Mikið af því sem veiðist á haustin fari í saltfiskvinnslu og sömuleiðis í ferskfiskvinnslu enda Vísir með eina fullkomnustu ferskfiskvinnslu landsins.

Frá því um helgi hefur Páll Jónsson GK svo verið í Meðallandsbugtinni og sagði Benedikt vel hafa veiðst, komið í ein 200 kör og til stóð að landa í gær. Á sama tíma og tré rifnuðu upp með rótum í Vesturbæ Reykjavíkur segir Benedikt vissulega hafa verið skítakalda á miðunum en ekkert umfram það.

Áhöfnin á línuskipinu Páli Jónssyni GK, sem Grindvíkingar kalla gjarnan Konung línuveiðaranna, lauk kvótaárinu í síðustu viku með snörpum túr með einni millilöndun og var afraksturinn alls um 270 kör sem gera afla upp á um 86 tonn. Það var ekki heldur verið að bardúsa mikið í landi því þegar slegið var á þráðinn til Benedikts Páls Jónssonar skipstjóra voru þeir þegar komnir á miðin fyrir sunnan land.

Páll Jónsson GK kom nýr til landsins í byrjun árs 2020 og leysti þá af hólmi eldra skip með sama nafni. Skipið er sérhannað til línuveiða, 45 metra langt og 10,5 metra breitt, og var smíðað í Póllandi eftir teikningum íslensku skipahönnunarstofunnar Navis. Skipið og áhöfn þess lék stórt hlutverk í veruleikaþáttum Discovery sjónvarpsstöðvarinnar í Kanada um línuveiðar á Íslandsmiðum sem nefndust Ice Cold Catch og sýndir voru í fyrra.

„Við byrjuðum suður af Surtinum, þar sem er kallað að vera milli kapla. Við byrjuðum á því að leggja á Stórahraun suður af Surtsey en vörum okkur á því að halda okkur milli kapla,“ segir Benedikt og vísar þar í fjarskiptakapla sem liggja frá Íslandi til Evrópu.

Þarna voru þeir mest í löngu og segir Benedikt hægt að gera mjög góða túra í þorsk og ýsu á vertíðinni á þessi mið. Þetta er líka talsvert þekkt löngumið á þessum árstíma.

Benedikt Páll Jónsson skipstjóri. Mynd/aðsend.
Benedikt Páll Jónsson skipstjóri. Mynd/aðsend.

„Þetta hefur bara verið dúndurflott veiði og uppistaðan í þessu var langa,“ segir Benedikt. Í hverri lögn eru 47 þúsund krókar og þeir eru í sjó einungis meðan verið er að leggja eða í nálægt fjóra til fimm tíma. Beitt er að mestu smokkfiski. Í Páli Jónssyni er frystigeymsla fyrir um 17 bretti af beitu sem dugar í 7 til 8 lagnir.

Benedikt segir að nýliðið kvótaár hafi verið mjög gott og menn séu mjög sáttir. Alls nam afli Páls Jónssonar GK á kvótaárinu 4.140 tonn.

Kaldaskítur á miðunum

„Við erum bara sáttir við afraksturinn við strákarnir á Páli en þetta gerist ekki að sjálfu sér. Fiskverð hafa verið góð eða bara eins og þau eiga að vera. Það er gríðarleg vinna á bak við þetta og þetta gerist ekki nema með góðri áhöfn. Svo lítur upphaf nýs fiskveiðiárs vel út með hörkugóðri byrjun. Vonandi er það forsmekkurinn að því sem koma skal,“ sagði Benedikt sem var að leggja norðan við Kötlugrunnshólf og stefnan að ná blönduðum afla í næstu túrum.

Benedikt segir allan gang á því hvernig aflinn er unninn í landi. Mikið af því sem veiðist á haustin fari í saltfiskvinnslu og sömuleiðis í ferskfiskvinnslu enda Vísir með eina fullkomnustu ferskfiskvinnslu landsins.

Frá því um helgi hefur Páll Jónsson GK svo verið í Meðallandsbugtinni og sagði Benedikt vel hafa veiðst, komið í ein 200 kör og til stóð að landa í gær. Á sama tíma og tré rifnuðu upp með rótum í Vesturbæ Reykjavíkur segir Benedikt vissulega hafa verið skítakalda á miðunum en ekkert umfram það.