Norsku rannsóknarskipin tvö sem taka þátt í alþjóðlega uppsjávarleiðangrinum í Norður-Atlantshafi segja mikið af makríl í lögsögu Noregs. Makrílinn sé umtalsvert stærri eftir því sem norðar dragi.

Þetta kemur fram i Fiskeribladet þar sem haft er eftir norska leiðangursstjóranum Leif Nøttestad að makríll sem sé í æti á nyrstu svæðunum sé næstum því tvöfalt stærri en makríll sem veiðist suður frá.

Að sögn Nøttestad áttu leiðangursmenn ekki von á að fá neitt í trollin því ekkert hafi sést á mælitækjum á þessum slóðum. En annað hafi komið á daginn því bæði stór makríll og stór síld hafi fengist. Makríllinn og síldin virðist hafa verið í æti á tíu til tólf metra dýpi.

„Við áttum heldur ekki von á því að fá makríl upp að 850 grömmum að þyngd í sjó sem var langt undir fjögurra gráðu heitur í norðvesturhluta Noregshafs með magana fulla af smokkfiski,“ hefur Fiskeribladet efir Nøttestad.