Opnað hefur verið fyrir umsóknir til Fiskræktarsjóðs vegna úthlutunar ársins.
Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.
Á vef Fiskiræktarsjóðs kemur fram að sjóðurinn starfar á grundvelli laga um Fiskræktarsjóð og er á forræði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
„Meginhlutverk sjóðsins er að veita lán og styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að viðhalda og efla lífríki í ám og vötnum ásamt því að auka verðmæti veiði úr þeim,“ segir á vef Fiskræktarsjóðs.
Ætlað veiðifélögum og fleiri
„Styrkir Fiskræktarsjóðs eru ætlaðir veiðifélögum, einstaklingum, rannsókna- og háskólastofnunum og öðrum lögaðilum. Fiskræktarsjóður gerir kröfu um að fyrir liggi fjármögnun verkefnisins eða verkhlutans, sem sótt er um styrk til. Veittir eru styrkir til eins árs í senn. Ef um framhaldsumsókn er að ræða, er gerð krafa um að framvinduskýrsla fylgi styrkumsókn,“ er tekið fram,
Þá segir að umsóknarfrestur sé 1. mars. Umsóknir eigi að vera á rafrænu eyðublaði og að umsóknir á pappírsformi séu ekki teknar gildar.
Horft til heildarhagsmuna
„Við mat á umsóknum er lögð áhersla á nýnæmi rannsókna og framkvæmda til að ná sem best markmiðum sjóðsins. Horft er til hæfni umsækjenda til að leysa verkefnið, þekkingar, reynslu, aðstöðu og raunhæfni áætlana (verk-, kostnaðar- og fjármögnunaráætlunar). Einnig er litið til samstarfs við fagaðila þegar ákvörðun er tekin um styrkveitingu og horft til þess hvort verkefnin séu í þágu heildarhagsmuna,“ segir enn fremur á vef Fiskræktarsjóðs þar sem nánar má lesa um reglur sjóðsins.