Tekjur í sjávarútvegi lækkuðu um 22 milljarða króna, eða um 6%, milli áranna 2022 og 2023. Hagnaður milli áranna lækkaði enn meira, eða um 13%, fór úr 67 milljörðum árið 2022 í 58 milljarða á síðasta ári.

Heildarafli lækkaði á síðasta ári um 3% og munaði þar mestu um 9% lækkun í þorski og 28% lækkun í loðnu. Landaður afli kolmunna jókst hins vegar um 53% og makríls um 9%. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Jónasar Gests Jónassonar, endurskoðanda og meðeiganda Deloitte, á Sjávarútvegsdeginum sem haldinn var í 11. sinn í samstarfi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins, í síðustu viku.

Frá árinu 2001 hefur Deloitte þróað gagnagrunn um sjávarútveg. Á þessu ári byggðist grunnurinn á ársreikningum félaga sem samtals eru með 96% af heildarúthlutun á Íslandsmiðum. Um var að ræða reikninga frá 112 fyrirtækjum.

Jónas Gestur Jónasson endurskoðandi og meðeigandi Deloitte.
Jónas Gestur Jónasson endurskoðandi og meðeigandi Deloitte.
© Aðsend/Anton Brink (Aðsend/Anton Brink)

Sterk framlegðarhlutföll

Afurðaverð lækkaði á síðasta ári og verðvísitala sjávarafurða í íslenskum krónum lækkaði um 5% milli áranna 2022 og 2023. Jónas kom inn á það að engu að síður voru framlegðarhlutföll innan sjávarútvegsins sterk í sögulegu samhengi. Þorskafli fór hæst í 450.000 tonn á árinu 1980 en var 221.000 tonn árið 2023. Fyrir daga kvótakerfisins, frá 1980 til 1983, fór EBITDAN, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, í um 7%. Frá 1984 til 1991, tímabilið fyrir frjálst framsal á aflaheimildum, fór EBITDAN í um 15% og 1992 til 2007, á árunum fyrir bankahrun, var hún 20%. Á árunum eftir hrun var gengi krónunnar mjög veikt og var EBITDAN þá um 29%. Á tímabilinu fyrir Covid 19 faraldurinn, eða frá 2013 til 2019, var EBITDAN um 23%. Á Covid 19 tímabilinu, frá 2020 til 2023, gekk líka mjög vel í sjávarútvegi þrátt fyrir erfiðari markaðsaðstæður bæði vegna alheimsfaraldursins og innrásar Rússa í Úkraínu. Á þessum tíma var framlegðin 27% EBITDA.

Best gengur í blönduðum uppsjávar- og botnfiskfélögum

Þegar sjávarútvegsfélögunum er skipt upp í þrennt eftir eðli starfsemi þeirra, þ.e.a.s. í blönduð uppsjávar- og botnfiskfélög, botnfiskútgerð og vinnslu og loks botnfiskútgerð, kemur í ljós að félög í fyrstnefnda flokknum hafa skilað mestri EBITDU öll árin frá og með 2019 og til og með 2023. Félög í öllum flokkum skila sömuleiðis lægri framlegð 2023 en 2022. Flokkurinn botnfiskútgerð og vinnsla skilaði lökustu framlegð.

Sem fyrr segir dró talsvert úr hagnaði sjávarútvegsfélaga á síðasta ári miðað við fyrra ár, eða um 13%. Deloitte segir að það sem dragi úr hagnaði milli ára skýrist af lægri framlegð úr rekstri og auknum vaxtagjöldum. Það sem einkum dró hagnaðinn niður voru vextir og verðbætur upp á 17 milljarða króna og reiknaðir skattar upp á 14 milljarða króna. „Fjármagnskostnaður sjávarútvegsfélaga hefur hækkað samhliða vaxtahækkunum á mörkuðum hérlendis og erlendis. Það á það sama við sjávarútveginn og almenninginn í landinu; það eru allir að borga hærri vexti en fjármagnskostnaður ársins 2022 var 11 milljarðar en er kominn í 17 milljarða núna sem er töluvert stökk í fjármagnskostnaði,“ sagði Jónas.

Skuldirnar

Heildarskuldir sjávarútvegsfélaganna hafa aukist frá 2022. Það ár námu þær 482 milljörðum króna en á síðasta ári voru þær 497 milljarðar króna og hækkuðu um 15 milljarða á árinu. Skuldirnar hafa raunar hækkað á milli ára á hverju ári frá 2019 að árinu 2021 undanskildu. Arðgreiðslur sjávarútvegsfélaga lækkuðu milli áranna 2022 og 2023 um tvo milljarða, fóru úr 23 milljörðum í 21 milljarð kr. Fram kom að 40% af arðgreiðslunum tilheyra skráðum félögum á hlutabréfamarkaði.

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfélaga

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfélaga á síðasta ári voru tæpir 30 milljarðar kr. Þar af var tekjuskattur 12,9 milljarðar kr. og veiðigjöld 10,1 milljarður. Reiknistofn veiðigjalda sem greidd voru 2023 var vegna veiða á árinu 2021. Á tímabilinu 2019 til 2023 voru bein opinber gjöld um 23 milljarðar kr. að meðaltali á ári. „Núna á árinu 2024 hafa verið greiddir 6,4 milljarðar kr. í veiðigjöld fyrir fyrstu átta mánuði ársins og stefnir því veiðigjald ársins 2024 í að verða í kringum 10 milljarðar.“