Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja atvinnuráðuneytið ekki hafa svarað ítrekaðri beiðni samtakanna um aðgang að undirliggjandi grunngögnum og útreikningum sem frumvarpsdrög um breytingu á veiðigjöldum byggja á. Atvinnuráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þessu er hafnað. Þar kemur einnig fram að SFS hafi ekki svarað boði um fund sem boðaður var 1. Apríl sl. þar sem til stóð að fara yfir útreikninga sem liggja að baki ákvörðunar veiðigjaldsins.
„Gagnabeiðnum frá samtökunum í tengslum við frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á lögum um veiðigjald hefur verið svarað innan tilskilinna tímamarka og þær afgreiddar í samræmi við upplýsingalög og stjórnsýslulög,“ segir í yfirlýsingu atvinnuvegaráðuneytisins.
„Samtökunum hafa verið afhent öll þau gögn sem óskað hefur verið eftir og falla undir afhendingarskyldu fyrrgreindra laga. Vinnugögn og gögn sem varða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga eða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila eru undanskilin afhendingarskyldu,“ segir þar enn fremur.
Þá er greint frá því í yfirlýsingunni að
ráðuneytið hafi átt þrjá fundi með samtökunum frá því í febrúar vegna fyrirhugaðrar leiðréttingar á veiðigjaldi auk annarra formlegra og óformlegra samskipta. Samtökin svöruðu ekki boði um fund sem boðaður var 1. apríl sl. þar sem til stóð að fara yfir útreikninga sem liggja að baki ákvörðunar veiðigjaldsins.
„Ákveðið var að veita viku umsagnarfrest í samráðsgátt enda brýnt að koma málinu sem fyrst til Alþingis og er það í samræmi við fyrirmæli í samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Aftur gefst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpið við þinglega meðferð þess.“