Hafdís Gunnarsdóttir er ein þeirra sem missir starf sitt til áratuga þegar rækjavinnsla Hólmadrangs leggst af á Hólmavík. Hún segir áhrifin munu ná langt út fyrir veggi fyrirtækisins. Samfélagið þurfi aðstoð utan frá.

„Þessar fréttir komu gríðarlega flatt upp á alla íbúana og nágranna okkar og ég held að fólk sé varla búið að átta sig á stöðunni enn þá,“ segir Hafdís Gunnarsdóttir, starfsmaður rækjuverksmiðjunnar Hólmadrangs á Hólmavík til 22 ára.
Hólmadrangi verður lokað um næstu mánaðarmót vegna viðvarandi tapreksturs. Starfsemin hefur lengi byggst á vinnslu á innfluttri rækju. 21 missir vinnuna,
„Ég átti aldrei nokkurn tímann von á því að starfsemin myndi leggjast af og held að ég geti líka svarað fyrir aðra starfsmenn að enginn átti von á að rækjuvinnslu yrði hætt endanlega,“ segir Hafdís. Þó hafi verið vitað af erfiðleikum í sölumálum í Bretlandi sem sé stærsta viðskiptalandið.

Hafa meiri áhyggjur af öðrum en sjálfum sér

„Við áttum von á stoppi í einhverja mánuði en alls ekki lokun,“ segir Hafdís.
Hjörtur Númason, eiginmaður Hafdísar, hefur starfað hjá Hólmadrangi frá því hann var fimmtán ára. Hjörtur er nú 65 ára þannig að ferilinn er orðinn hálf öld.
Aðspurð um möguleika þeirra hjóna og annarra starfsmanna eftir að Hólmadrangi verður lokað segir Hafdís þau hjón ekki vera þau verst stöddu.

Ekki annar möguleiki í stöðunni

„Ég hef meiri áhyggjur af þeim sem eru með börn og unglinga í framhaldsskóla og fólk sem er nýbúið að kaupa húsnæði það er í verri stöðu en við Hjörtur. Ég held að flestir ætli að leyfa rykinu að setjast og sjá hverju fram vindur. Við höfum okkar uppsagnafrest, sumir meira en aðrir eins og gengur. Eftir það taka við atvinnuleysisbætur hjá flestum hugsa ég,“ segir Hafdís. Hún voni að stór fyrirtæki á staðnum bæti við starfsfólki eða í það minnsta ráða í störf sem losni.
„Eftir að við vorum upplýst um stöðuna; sölutregðu, miklar birgðir, háan flutningskostnað sem var mjög íþyngjandi og fleira þá tel ég það ekki hafa verið um neina aðra möguleika að ræða en að hætta rækjuvinnslu,“ svarar Hafdís spurð hvort hún telji lokun Hólmadrangs hafa verið óhjákvæmilega.
„Þegar svo stórt högg ríður yfir samfélagið vil ég trúa að við fáum utanaðkomandi aðstoð. Þetta er of stórt högg til að samfélagið geti ráðið við þetta eitt og sér,ׅ“ segir Hafdís.

Var fastur punktur í tilverunni

Hafdís segir starfsmennina hafa haldið hópinn þétt undanfarin ár og áratugi.

„Fyrir marga starfsmenn hefur þessi vinnustaður ekki bara verið vinnan heldur líka fastur punktur í tilverunni. Kaffistofan hefur verið mjög stór punktur í félagslegu hliðinni þar hafa farið fram líflegar umræður um daginn og veginn,“ segir Hafdís. Hún voni að fólkið reyni að að vera ekki svartsýnt á framhaldið.

„Ég veit að þetta fer misjafnlega í fólk enda misjafnar aðstæður hjá fólki en hef þó ekki fundið fyrir neinni biturð eða reiði út í neitt eða neinn hjá fólki sem hefur kynnt sér málin,“ segir Hafdís.

Café Riis missir stóran spón úr aski

Áhrifin af lokun Hólmadrangs eru ekki bundin við rækjuvinnsluna eina.
„Ég nefni fyrst Café Riis sem hefur séð um hádegismat fyrir okkur starfsmenn allt árið, í áraraðir. Það munar verulega um það í rekstri þeirra. Ég nefni trésmiðjuna Höfða sem hefur unnið mikla vinnu hjá okkur við nýbyggingu og viðhaldsvinnu undanfarin ár,“ segir Hafdís.

Sveitarfélagið verði fyrir miklu tekjutapi vegna minkandi vatnsnotkunar og samdráttar í útsvari. Vertakar hafi unnið við löndun á rækju. Hólmavíkurhöfn missi hafnargjöld. Pakkhúsið Vík sem er með alls kyns byggingarvörur og fleira verði af tekjum. Flutningafyrirtæki sömuleiðis.
„Ég ætla svo sannarlega að vona að fólk neyðist ekki til að flytja búferlum en það er viðbúið að einhverjir þurfi að leita sér vinnu utan svæðis tímabundið að minnsta kosti með tilheyrandi kostnaði,“ segir Hafdís Gunnarsdóttir.