Helix kaðallinn er lykillinn að þaneiginleikum Gloria Helix flotrollana en hann gerir það að verkum að trollin opnast hraðar og betur við kast auk þess sem trollin halda betur lögun í beygjum. Kjarninn í hefðbundnum Helix kaðli er nylon en með nýjum Robus ofutógskjarna má ná sama styrk í mun grennri Helix kaðli og þar með minnka togviðnám trollsins og auka toghraða.
„Helix Robus kaðallinn hefur opnað nýjar víddir í hönnun á Gloríu flottrollum,“ segir Einar Skaftason, veiðarfærahönnuður Hampiðjunnar. „Það er til mikils að vinna að geta létt trollin, sérstaklega fyrir makrílveiðar þar sem hraði skiptir miklu máli til að ná stærsta fiskinum. Einnig er mikilvægt að ná að létta kolmunnatrollinn þar sem kolmunnaveiðar eru orkufrekar og léttari troll draga úr eldsneytisnotkun.“

Slitþolspróf á nýja Helix Robus kaðlinum á rannsóknarstofu Hampiðjunnar Baltic í Litháen sýna að hægt er grenna kaðalinn töluvert og til dæmis þá er hægt að nota 12 mm tóg í stað 16 mm, sem minnkar viðnám kaðalsins í sjó umtalsvert.
„Fyrir síðustu makrílvertíð settum við upp Gloríu 1760 makríl troll með nýju Helix Robus köðlunum í framhluta trollsins fyrir Venus NS 150. Reynslan af því trolli var afar góð og í framhaldi af því höfum við framleitt og selt fimm makríltroll með Helix Robus kaðli fyrir þessa vertíð,” segir Einar.
Undanfarin misseri hafa einnig verið hönnuð ný kolmunnatroll með Helix Robus köðlunum, þau hafa verið í prófunum og útkoman lofar góðu. Með þaneiginleikum Helix og styrk Robus er nú hægt að tala um sannkallað ofurþantóg.