Síminn og Radíómiðun hafa þróað staðbundið einkafarsímakerfi sem er algjörlega óháð hefðbundnum farsímakerfum. Þetta nýsköpunarverkefni varð til í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtækin Fisk Seafood, Brim og Útgerðarfélag Reykjavíkur. Markmiðið er að auka öryggi sjómanna og bæta samskipti um borð í fiskiskipum á hafi úti.
Sjómenn vinna oft við krefjandi aðstæður á dekki á sjó en samskipti milli manna á dekki og þeirra sem eru í brúnni hafa verið vandamál sem flestir skipstjórnarmenn þekkja.
Lausn Radíómiðunnar, sem er dótturfélag Símans, var að þróa einkafarsímakerfi sem er staðsett um borð í skipunum og er óháð öllu sambandi í landi.
Afar nettur sendabúnaður var hannaður og því næst sérsmíðaður. Búnaðurinn er minni en skókassi og er komið fyrir í tækjarými fyrir neðan þilja. Á dekkinu eru sjómenn með hjálma með innbyggðum heyrnatólum sem eru gerð fyrir þráðlaus samskipti. Mjög öflug síun á umhverfishljóðum gerir öll samskipti mun skýrari og skilvirkari en áður hefur þekkst.
Guðjón Guðjónsson, skipstjóri á Arnari HU, segir að kerfið hafi verið í notkun í skipinu í tvö ár og hann hefur ekki önnur orð yfir það en að það sé „rakin snilld“. Hjálmakerfið er símkerfi í sjálfu sér og þetta hafi bætt samskipti við vinnu um borð í skipinu til muna. Skúli Tómas Hjartarson vélstjóri segir að kerfið bjóði upp á mjög öfluga síun á umhverfishljóðum. Áður var notast við talstöðvar við samskiptin og þá drekktu oft umhverfishljóð eins og keðjuglamur samskiptunum. Nýja kerfið geri öll samskipti mun skýrari og sex manns geta átt snurðulaus samskipti sín á milli á sama tíma, þ.e.a.s. sá sem er í búrinu að hífa, fjórir á dekki og svo brúin. Skúli Tómas segir að þessi nýja tækni sé bylting í samskiptum úti á sjó.
Skipstjórnarmenn og vélstjórar í lykilhlutverki
Þröstur Ármannsson, framkvæmdastjóri hjá Radíómiðun, sem sér um að þjónusta skip og báta með fjarskipta- og upplýsingatæknilausnir, segir að ólíkt hefðbundnum talstöðvakerfum eru samskiptin í þessu kerfi tvíhliða. „Í stað tvískipts tals eins og er notað í talstöðvum, „yfir“ og „út“, eru samskiptin eins og í símtali, sem eykur hraða og öryggi samskiptanna til muna.
„Skipstjóri getur síðan með því að þrýsta á einn hnapp í brú aukið sendiafl kerfisins til að ná lengra út frá skipinu ef setja þarf bát á flot og fara frá skipinu. Möguleikar til að samtengja skip er til staðar og er þegar farið að nota á uppsjávarskipum. Til dæmis þegar afla er dælt milli skipa geta áhafnir tengst saman og átt örugg og hröð samskipti,“ segir Þröstur.
Að sögn Þrastar voru skipstjórnarmenn og vélstjórar sjávarútvegsfyrirtækjanna, sem lausnin var þróuð með, í lykilhlutverki í að leggja upp útfærsluna svo hún nýttist þeim sem best í þessum aðstæðum.
„Og þar sem engar snúrur eru milli búnaðar tryggir það að rekstrarkostnaður er mjög lítill því allt er orðið þráðlaust.“
Erik Figueras, framkvæmdastjóri stafrænna þróunar hjá Símanum segir að með þessu nýsköpunarverkefni, sem hefur fengið nafnið Síminn Prívat, sé Síminn að taka fyrsta skrefið í að bjóða lausnir þar sem einkafarsímakerfi er nýtt í aðstæðum sem það á við.
„Á komandi árum mun þörf fyrir slíkar lausnir aukast þar sem fyrirtæki geta fengið öruggari þráðlausar lausnir yfir 5G með sambærilegri útfærslu. Samstarfið við þessi framsýnu sjávarútvegsfyrirtæki, sem tóku virkan þátt í þróuninni, var lykillinn að árangri,“ segir Erik og bendir á að kerfið vinni með öllum hefðbundnum þráðlausum heyrnatólum, hvort sem þau eru innbyggð í hjálma eða fari beint í eyra eins og til dæmis Airpods frá Apple.