Móttökuathöfn var haldin í Fáskrúðsfirði síðastliðinn sunnudag þegar nýtt Hoffell kom í fyrsta sinn til heimahafnar. Margmenni var niðri við höfnina og skipinu var siglt til sýnis inni á firðinum. Gestum og gangandi var svo boðið um borð til að skoða skipið og þiggja veitingar. Fanney Linda Kristinsdóttir, starfsmaður Loðnuvinnslunnar, gaf skipinu nafn.

Nýja Hoffellið, áður Asbjørn, var málað í grænum lit Loðnuvinnslunnar áður en því var siglt frá Noregi til Íslands. Það er með 2.530 rúmmetra lest á móti 1.650 rúmmetra lest í eldra skipi.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Aðsend mynd
Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Aðsend mynd

„Það er orðið lengra að sækja allt og nýja skipið tekur 900 tonnum meira í lest. Burðargetan er 53% meiri og togkrafturinn er 40% meiri. Hér áður fyrr voru 5-10 klukkustunda sigling á miðin til makrílveiða. Nú erum við farnir að sigla 400 mílur austur af landinu til að ná í makríl og það er þriggja sólarhringa sigling fram og til baka. Sama á við um loðnu í hrognatöku. Loðnan er öll fyrir vestan land þegar hún er verðmætust. Svo er það kolmunninn langt suður í hafi. Nýja Hoffellið er stórt og mikið skip og breytir miklu fyrir okkur,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Talsverður aðdragandi

Kjartan Reynisson útgerðarstjóri segir að málið hafi gengið hratt fyrir sig eftir að búið var að skrifa undir samninga um kaup á skipinu. Engu að síður hafi það átt sér talsverðan aðdraganda eða allt frá því í desember á síðasta ári.

„Það var það sem við vorum fyrst og fremst að stefna að; stærra og burðarmeira skip. Það er stefnt að því að fara á veiðar núna á næstunni hvar svo sem makríll finnst í veiðanlegu ástandi. Tilgangurinn með nýju skipi er að sækja meiri afla í færri ferðum og gildir það jafnt hvort heldur við erum að veiða kolmunna eða makríl og þó sér í lagi  á loðnuveiðum þar sem hrognatíminn er takmarkaður,“ segir Kjartan.

Nýja Hoffellið er níu árum yngra skip en það eldra sem hefur verið selt úr landi. Kjartan segir meiri búnað í nýja skipinu, þar á meðal tvær flottrollstromlur svo hraðara gengur að skipta á milli veiðarfæra. Vistarverurnar eru ennfremur stærri og rúmbetri en jafnmargir verða í áhöfn.

Vetrarbræla á heimleið

Sigurður Bjarnason skipstjóri fór af Jónu Eðvalds SF árið 2019 yfir á gamla Hoffellið. Hann sigldi nýja skipinu heim frá Noregi og hreppti djúpa lægð á leiðinni yfir hafið.

„Við fengum eiginlega vetrarbrælu á leiðinni en skipið fór vel með okkur. Okkur er sagt að þetta sé gott sjóskip. Þetta er allt stærra og meira og við getum haft tvö troll klár. En það er reyndar ekki dælubúnaður að aftan og verður bara að koma í ljós hvort bætt verði úr því,“ segir Sigurður.

Myndi/ Valgeir Mar Friðriksson
Myndi/ Valgeir Mar Friðriksson

Hann segir að það muni öllu um aukna burðargetu þegar verið sé að sækja makríl 350-400 sjómílur út á haf. „Kolmunnann sækjum við 7-8 hundruð sjómílur suður eftir og eins er langt að fara á gráa svæðið við miðlínuna milli Færeyja og Skotlands. Svo eru það hrognatúrarnir vestan við landið þegar verðmætin eru mest,“ segir Sigurður.