Samið var um smíði á nýju uppsjávarskipi fyrir Skinney-Þinganes við Karstensens skipasmíðastöðina í Skagen í desember 2021 og um svipað leyti var samið um smíði á nýjum Hákoni ÞH, nákvæmlega eins systurskipi. Fyrirtækin höfðu skipti á samningum þannig að Gjögur fékk fyrra skipið og skip Skinneyjar-Þinganes, nýr Ásgrímur Halldórsson SF, er væntanlegt á þarnæsta ári. Þau tímamót urðu svo á sunnudaginn að Hákon ÞH 250 sigldi tignarlegur inn spegilslétt sundið og lagðist að Vogabakka í Reykjavík árla morguns.
13 tankar – 2.500 rúmmetrar
Skipið er 75,4 metrar á lengd og 16,5 metrar á breidd. Skrokkurinn var smíðaður hjá Karstensens í Gdansk í Póllandi og var hann svo dreginn yfir til Skagen þar sem fullnaðarfrágangur fór fram. Í því eru 13 RSW kælitankar sem eru alls nálægt 2.500 rúmmetrar sem þýðir að þær rúma að hámarki 2.200-2.300 tonn af kolmunna þegar verið er á þeim veiðum.
Hákon ÞH kemur til með að landa í Hornafirði, alla vega fyrsta kastið, og þá kemur sér vel að djúpristan var höfð sem minnst við hönnun skipanna, jafnt í Hákoni og nýjum Ásgrími Halldórssyni, eða um 6,5 metrar. Það er gert vegna óssins þar sem gerir að verkum að innsiglingin til Hafnar í Hornafirði getur reynst djúpristari skipum farartálmi.
Vélarbilun
Vélar skipanna eru smíðaðar af einum stærsta skipsvélaframleiðanda heims, Wärtsilä, sem stofnað var í Finnlandi árið 1834. Fyrirtækið er með starfsemi í yfir 79 löndum og starfsmenn eru hátt í 18.000. Aðalvélin í Hákon ÞH er Wärtsilä 8V31, 5.200 kW og skrúfan verður fjórir metrar í þvermál. Þessi vél fékk á árinu 2015 viðurkenningu hjá Heimsmetabók Guinness sem skilvirkasta fjórgengis dísilvél heim. Það kom mönnum þó í opna skjöldu þegar tilkynningar bárust um vélarbilun þegar skipið var um 25 sjómílur suður af Færeyjum. Stímið var tekið beint til Þórshafnar þar sem málið var tekið föstum tökum.
Fjórði Hákon í sögu Gjögurs
Þetta er fjórði Hákon í útgerðarsögu Gjögurs. Sá fyrsti var gerður út frá 1974 til 1980, Hákon II frá 1980 til 2001 og Hákon III frá 2001 til 2024. Það sem breytist með þeim fjórða sem kom til landsins sl. sunnudag er einnig að hann er skráður ÞH í stað EA. Arnþór Pétursson skipstjóri, sem sótti nýjan Hákon ÞH 250 ásamt áhöfn sinni til Danmerkur fyrr í mánuðinum, sigldi einnig Hákoni EA frá Chile til Íslands árið 2001. Hann segir mikinn mun á þessum tveimur skipum enda hafi tækninni fleygt mikið fram á þessum rúmu tveimur áratugum. Arnþór hóf störf hjá Gjögra 1988 og hefur verið á þremur skipum útgerðarfélagsins sem bera nafnið Hákon.
„Íburðurinn er allur meiri í nýjum Hákoni svo ekki sé minnst á tækniumhverfið. Þótt sá eldri hafi verið uppfærður þá er svo margt sem bætist við í þessum efnum þegar farið er út í nýsmíði. Það er mikil þróun í þessum málum,“ segir Arnþór.
Eyðslan niður um 60 lítra á klst
Haldið var úr höfn í Skagen 11. október síðastliðinn og stefnan tekin á Reykjavík. Strax hrepptu þeir vond veður svo reyndi á sjóhæfni skipsins og segir Arnþór hann hafa látið vel að stjórn og farið vel í sjó þrátt fyrir talsverða ölduhæð og vindstyrk.
„Við vorum einhverjar 25 mílur suður af Færeyjum þegar ofhitnaði á einum cylindra í vélinni.“ Þá var stefnan tekin á Þórshöfn í Færeyjum og þar sem skipið var allt fram á föstudag í síðustu viku. Vandlega var farið yfir bilunina af sérfræðingum frá Wärtsilä og ónýta strokknum skipt út fyrir nýjan. Allt tók þetta sinn tíma því menn vildu komast að niðurstöðu hvað hefði valdið biluninni. Nú gengur skipið eins og klukka.
Arnþór segir að bilunin hafi í sjálfu sér ekki komið mikið að sök með tilliti til uppsjávarveiða á þessum tíma. Það var einungis spenningurinn hjá áhöfninni að komast á veiðar sem fór stigvaxandi. Haldið var frá Þórshöfn til Íslands sl. föstudag og enn hrepptu menn hið versta veður á leiðinni. Þannig má segja að þeim prófunarþætti sem lítur að siglingu í snarvitlausu veðri sé nokkurn veginn lokið.
Á heimsiglingunni var reynt á sparneytni vélarinnar sem er umtalsverð miðað við eldri Hákon. Með tölvubúnaði er hægt að stýra keyrslu vélarinnar þannig að hún nýti olíuna sem best. Í einni stillingunni sem var prófuð á heimsiglingunni datt eyðslan niður um um það bil 60 lítra á klukkustund.
„Við ætlum að reyna að taka alla vega einn túr á norsk-íslenskri síld og svo í framhaldi fórum við á íslensku síldina og þar er af nógu að taka. Við reiknum með að verða eitthvað fram í janúar á þeim veiðum og svo taka vonandi loðnuveiðar við. Annars verður það þá kolmunni. Við munum landa norsk-íslensku og íslensku síldinni sem og makríl mestmegnis á Hornafirði. Ég verð þá að sigla þarna inn í fyrsta skipti,“ segir Arnþór.