Ráðgert er að nýr bátur Hraðfrystihúss Hellissands fari í sína fyrstu veiðiferð milli jóla og nýárs eða strax í byrjun nýs árs. Báturinn leysir af hólmi Gunnar Bjarnason SH sem seldur var til FISK Seafood án aflaheimilda í október síðastliðnum.
Nýr bátur Hraðfrystihúss Hellissands er smíðaður í Danmörku 2019. Hann var gerður til dragnóta- og trollveiða í Norðursjó og Barentshafi og hét Pia Glanz. Báturinn er umtalsvert stærri en Gunnar Bjarnason SH var, eða 33,3 metrar á lengd og 9,4 metrar á breidd. Hann er með 750 kW Mitsubishi vél og tvær John Deere ljósavélar. Hann var gerður út frá Thyborön á Vestur-Jótlandi.
Báturinn kom til landsins um miðja síðustu viku og liggur nú í Hafnarfjarðarhöfn þar sem beðið er eftir íslensku haffærisskírteini. Örvar Ólafsson, útgerðarstjóri HH, segir að heimsiglingin hafi gengið eins og í sögu.
Fín viðbót
„Báturinn er fín viðbót í okkar flota og mun stærri en Gunnar Bjarnason. Það er aldrei nóg til af kvóta en Gunnar Bjarnason fór kvótalaus til FISK Seafood. Við fáum nýrri og betri bát í staðinn. Hann er með góðan aðbúnað fyrir áhöfn og ætti að fara betur með hráefni og mannskap. Við munum gera hann mest út á snurvoð en líka á trollveiðar á hefðbundnum heimaslóðum, þ.e. úti fyrir Vesturlandi og Vestfjörðum. Þetta er öflugur lítill bátur sem dregur tvö troll,“ segir Örvar.
Verið er að standsetja bátinn í Hafnarfirði svo hann gagnist útgerðinni til þess að byrja með en síðar á næsta ári verður farið í að breyta uppsetningu á millidekki.