Togarinn sem áður hét Tuugaalik en síðast Tuukkaq og Brim keypti frá Grænlandi í júlí er nú í slipp á Akureyri þar sem hann verður málaður í litum íslenska útgerðarfélagsins. Skipið hefur þegar verið prýtt nýja nafninu Þerney RE-3.

Sagt var frá kaupunum á grænlenska frystitogaranum í lok júlí í sumar. Kom þá meðal annars fram að kaupverðið væri jafnvirði 2,9 milljarða króna og að Brim hyggðist í framhaldinu selja frystitogarann Örfirisey RE-4. Seljandi Tuukkaq var Tuukkaq Trawl AS sem er hlutdeildarfélag Royal Greenland AS.

„Þetta er öflugt heilfrystiskip og við hyggjumst nota það í þær tegundir sem eru mest færðar til heilfrystingar,“ sagði Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brim, í Fiskifréttum þann 28. júlí síðastliðinn.

Skipið sem nú er orðið Þerney var smíðað árið 2001 í Noregi. Það er 66,4 metra langt og 14,6 metra breitt.