Þórunn Þórðardóttir HF 300, nýtt hafrannsóknaskip Íslendinga, sem nú er í smíðum í Vigo á Spáni, verður búin nýrri gerð toghlera frá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Ekkó toghlerum. Hlerarnir stuðla að minni olíunotkun og minna umhverfisraski. Fyrirtækið hefur nú þegar selt tólf pör af þessum toghlerum og nýjasta viðbótin er Bergur VE.
12-15% olíusparnaður á veiðum
Maðurinn á bak við nýju toghlerana er Smári Jósafatsson sem hefur unnið að þróun þeirra í yfir tíu ár. Fyrirtækið er nú með fjögur einkaleyfi fyrir tækninni og það fimmta er í vinnslu. Hlerarnir fyrir Þórunni Þórðardóttur eru Ekkó P1 flottrollshlerar. Þar stendur P-ið fyrir Pelagic (uppsjávarveiðar) og 1 fyrir eins spoilera hlera. Þeir eru 4,5 fm að stærð og vega 1.050 kg hvor. Bergur VE fær Ekkó S1 (fyrir Semi, eins spoilera hlera). Þeir eru 4,5 fm og vega 1.400 kg hvor. Olíusparnaður 12-15% á veiðum
„Það er miklu léttara að toga þessa hlera þótt þeir séu í raun jafn þungir og aðrir hlerar. Formið gerir það að verkum að þeir eru togaðir á mun minna horni en aðrir hlerar og skvera sig út sjálfir. Olíusparnaður með notkun hleranna hefur verið mældur í nokkrum skipum og hann er yfirleitt á bilinu 12-15% meðan skip er á veiðum. Um 25% mótstöðunnar og viðnámsins við botntrollsveiðar má að jafnaði rekja til hleranna. Olíusparnaður með nýju hlerun[1]um hefur verið mældur 12-15% en þetta er svo mikill olíusparnaður að menn fara oft í hálfgerða vörn svo ég segi bara sjálfur að hann sé 7,5%,“ segir Smári.
Stór þáttur í ákvarðanatöku við nýsmíðar er að ná niður olíunotkuninni og það hefur verið gert með nýrri skrokkhönnun, stærri skrúfum og nútímalegri vélum. Þáttur veiðarfæra skiptir miklu máli í þessu samhengi og þetta nýja form á Ekkó hlerunum er framlag í þessa átt. Í kynningarbæklingi frá Ekkó segir að á Íslandi séu 55 togskip og miðað við 7,5% olíusparnað með notkun Ekkó hlera gæti flotinn sparað 7.000 tonn af olíu á ári notaði hann allur þessa hlera. Það jafngildi 22.000 tonna minnkun á koltvísýringslosun. Í bæklingnum segir líka að heimsmarkaður fyrir toghlera sé um 100 milljarðar króna. 35% af þessum markaði eru skip í Atlantshafi sem verður helsti markaður Ekkó hlera.
Þrjár loftstillingar
Smári bendir einnig á að í nýju hlerunum er loftlás eins og var líka í fyrri gerðum Ekkó hlera. Loftlásinn er tvöfaldur í nýju gerðinni. Þrjár loftstillingar eru á hleranum sem býður upp á þrjár dýptir í sjónum. Með meira lofti í hleranum er meira flot á honum og hann verður mun léttari. Árið 2018 komu innlendir fjárfestar að verkefninu og þá stóð til að vinna það hratt áfram og leita að nýjum fjárfestum 2019-2020 en þá skall heimsfaraldurinn á. Plönin riðluðust því fæstir voru tilbúnir að styðja við nýsköpun á þeim óvissutímum. Verkefnið fór svo á fullt á ný síðla árs 2022 og hafa Ekkó hlerar verið settir í Björgólf EA og Vestmanney VE þar sem þeir hafa virkað vel, að sögn Smára. Hlerarnir hafa litla snertingu við botn án loftlássins en með honum er hægt að stilla hlerana þannig að þeir snerta aldrei botn.
Hleraparið sem hefur verið selt í Berg VE er tólfta hleraparið sem Ekkó hlerar hafa selt. Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson HF 30 er eitt þeirra skipa sem nota þessa hlera, tvö pör eru í Svíþjóð og eitt á Englandi.
„Hleraparið í Bjarna Sæmunds[1]syni hefur reynst afar vel og það er mikil viðurkenning fyrir okkur að Hafrannsóknastofnun velji aftur hlera frá okkur í Þórunni Þórðardóttur HF. Það er góð kynning að hafrannsóknaskip velji hlerana jafnvel þótt það sé ekki veiðiskip. Af þessu hlýst kynning erlendis. Það eru líka tímamót fyrir okkur að Bergur VE fái hlera frá okkur og það eru „eins spoilera“ hlerar eins og hentar á fiskitrolli og eru miklu léttari á togi,“ segir Smári.