DNG, dótturfélag Slippsins Akureyri, hefur hannað nýja handflökunarlínu sem er framleidd í fjórum stærðum með 4, 6, 8 eða 10 vinnslustöðvum. Handflökunarlínan er sögð henta fyrirtækjum af ólíkum stærðum og allar útfærslur hafa búnað sem styður við skilvirkni og gæðakröfur.
Í miðju kerfisins er skammtaravog sem stýrir hráefnisflæði. Hún skammtar fyrirfram ákveðnu magni inn á hverja stöð og tryggir jafnt vinnuálag. Þetta stuðlar að stöðugum afköstum og bættri nýtingu.
Innbyggður PROMAS-hugbúnaður safnar upplýsingum um framleiðslu, þar á meðal magn, nýtingu og afköst starfsfólks. Þannig fá stjórnendur góða yfirsýn og geta stýrt ferlinu markvissar.
Viðmót línunnar er einfalt og notendavænt. Á hverju stæði er hnappur til að óska eftir næsta skammti, auk neyðarstöðvunar sem eykur öryggi.
Lögð er áhersla á þægindi í vinnuumhverfi. Hæðarstillanlegir pallar gera starfsfólki kleift að aðlaga vinnustöðina að eigin þörfum.