Magnus Stangeland, fyrrverandi meðlimur Stórþingsins og framámaður í atvinnulífinu þar í landi hefir verið dæmdur í átján daga skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sektar fyrir ólöglegar netaveiðar á laxi.

Hinn 83 ára Stangeland mun þegar lögreglan gerði húsleit á heimili hans hafa reynt að fela frosinn lax undir runna í garði sínum að því er kemur fram í frétt Norska ríkisútvarpsins, NRK, af málinu.

Stangeland sat á þingi fyrir Miðflokkinn norska á árunum 1985 til 1997.

Netið 88 metra langt og ekki nógu djúpt

Sök Stangelands fólst í því að hafa lagt 88 metra langt og sjö metra breitt fiskinet við Austevoll nærri Bergen á þannig stað og dýpi að það gæti fangað lax og sjóbirting sumarið 2023. Bar hann því við að hafa ætlað að koma aftur daginn eftir og færa netið sem auk þess að vera á ólöglegum stað var ekki merkt samkvæmt reglum.

Stangeland kvaðst harma gjörðir sínar og er að sögn sáttur við dóm sinn og ekki síst það að fá að halda veiðileyfi sínu enda sé veiði hans helsta áhugamál. Sektin sem honum er gert að greiða svarar til tæplega 250 þúsund íslenskra króna

Fékk að halda bátnum sínum

Saksóknari hafði krafist þess að Stangeland yrði sviptur veiðileyfinu í tvö ár auk þess sem tveir fiskibátar hans að andvirði samtals um 5 milljóna íslenskra króna yrðu gerðir upptækir. Embættið hefur ekki tekið ákvörðun um hvort dóminum verður áfrýjað.

Hefur NRK eftir Torbjørn Forseth, vísindamanni hjá Norsku náttúrurannsóknastofnuninni, NINA, að jafnvel ólöglegar laxveiðar í smáum stíl geti haft eyðileggjandi áhrif á villta laxastofna sem séu í útrýmingarhættu.

Stjórnvöld í Noregi hafa að sögn NRK hert refsingar fyrir ólöglegar netaveiðar á undanförnum árum. Hámarksrefsing við slíku er í dag fimm ára fangelsisvist.