Fjöldi skipa er nú að loðnuveiðum norðaustur af landinu. Fyrstu norsku skipin eru mætt á miðin og alls hefur Fiskistofa úthlutað 68 norskum skipum leyfi til loðnuveiða, sem er svipaður fjöldi og á fyrri árum.

Beitir NK landaði um síðustu helgi 3.061 tonni í Vedde í Noregi, sem Norðmenn segja stærsta loðnufarm sem landað hefur verið í Noregi. Í byrjun vikunnar landaði svo Börkur NK 3.211 tonnum á Seyðisfirði, en það mun vera stærsti loðnufarmur sem landað hefur verið hér á landi.

Síldarvinnslan greindi frá þessu í byrjun vikunnar og sagði jafnframt að norsku skipin hafi enn sem komið er lítið fengið af loðnu: „Norsku skipin veiða í nót og hefur loðnan staðið of djúpt til að unnt sé að ná henni í nótina.“

Norska skipið Vestviking hélt til Noregs í gær með fyrsta farminn, sem varð aðeins 55 tonn.

Norsku útgerðarsamtökin Fiskebåt eru ósátt við þau skilyrði sem norsku skipunum eru sett við loðnuveiði hér við land, en þau mega einungis veiða með nót norðan við 64°39‘N og veiðitímabili þeirra lýkur 22. febrúar. Íslenskum, grænlenskum og færeyskum skipum er heimiluð veiði til 30. apríl, í nót eða flottroll. Einungis Norðmönnum er bannað að veiða sunnan við 64°39‘N.

Vilja breytingar

Fiskebåt hafa leitað til norska sjávarútvegsráðuneytisins og óska eftir því að norsk stjórnvöld takið það upp við Ísland að norsku skipin fái sama sveigjanleikann við veiðarfæraval og skip annarra þjóða, eða í það minnsta að Norðmönnum verði leyft að veiða sunnan við mörkin og veiðitímabilið verði lengt til 10. mars næstkomandi.

„Allar þessar takmarkanir geta átt þátt í að það geti orðið erfitt fyrir norsku skipin að veiða þann kvóta sem þeim var úthlutað á þessari vertíð,“ segir í bréfi sem Fiskebåt sendi norska ráðuneytinu á þriðjudag.

Íslendingar hafa heimild til að veiða rúm 660.000 tonn af heildarkvóta vertíðarinnar. Norðmenn mega veiða rúm 145.000 tonn, Grænlendingar nærri 67.000 tonn og Færeyingar tæp 30.000 tonn.

Íslensku skipin eru nú þegar búin að veiða nærri 160.000 tonn af loðnu á vertíðinni, en fyrsta loðnufarminum var landað í byrjun desember.

Loðnuleiðangur

Bæði rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, héldu úr höfn á þriðjudag í tveggja vikna loðnumælingaleiðangur, þar sem markmiðið verður að ná mælingu á stærð hrygningarstofnsins.

Að leiðangrinum loknum verður ráðgjöfin fyrir vertíðina endurskoðuð, eins og gildandi aflaregla gerir ráð fyrir, en í haust var gefin út ráðgjöf upp á 904 þúsund tonn. Sú ráðgjöf var byggð á loðnuleiðangri haustsins. Oftast hefur niðurstaða vetrarleiðangurs leitt til þess að ráðgjöfin hefur hækkað, jafnvel verulega, en 2021 varð niðurstaðan þó sú að lækka þurfti ráðgjöfina. Lokaráðgjöfin það ár varð 127 þúsund tonn en upphafstillagan frá haustinu áður hljóðaði upp á 170.000 tonn.

Þá hefur norska Fiskarlaget, sem er heildarsamtök norskra útgerða, samið við Iceland Sustainable Fisheries (ISF) um aðild Norðmanna að MSC-vottun loðnuveiða við Ísland. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur samningur er gerður, en Norðmenn taka þá þátt í kostnaði við vottunina ásamt Íslendingum.