Grænlenski frystitogarinn Sisimiut sem gerður er út af Royal Greenland landaði í gær í Hafnarfirði afla að verðmæti 60 milljóna danskra króna, jafnvirði 1.555 milljóna íslenskra króna.

Mun þar vera um metafla að ræða hjá Sisimiut og var haldið upp á það með köku um borð eins og sjá má af meðfylgjandi mynd sem Ivan Durhuus Olsen skipstjóri póstaði á samfélagsmiðlum.
Aflinn sem landað var fékkst eftir 30 daga úthald á Dornbanka rétt vestan við miðlínu við Austur-Grænland. Samtals var landað 602 tonnum nettó og var uppistaðan, eða 575 tonn, þorskur og af gullkarfa voru 26 tonn. Aðrar tegundir voru í hverfandi magni.
Sisimiut lét úr höfn í Hafnarfirði strax eftir löndun í gær.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu hennar var sagt að aflaverðmæti Sisimiut í þessum mettúr hafi verið 30 milljónir danskra króna. Hið rétta er að verðmatið nam 60 milljónum danskra króna eins og glögglega sést á kökunni sem keypt var af þessu tilefni.