Fjórðungur alls makríls sem fluttur er út frá Noregi til Suður-Kóreu er í dag seldur með rafrænum hætti. Þetta kemur fram í umfjöllun Norska sjávarafurðaráðsins.

Þessi rafrænu viðskipti fara meðal annars fram í rafrænum stórmörkuðum og sjávarafurðasölum á netinu.

Kóreumenn eru sagðir hafa breytt innkaupsvenjum sínum. Þeir fari ekki jafn oft í verslanir og áður og kaupi í staðinn mat og drykkjarvörur á vefnum. Heimsfaraldurinn hafi átt stóran þátt í þessari þróun. Nýjustu tölur sýni að hvorki meira né minna en 43 prósent Suður-Kóreumanna versli í viku hverri í gegnum netið. Bent er á að IKEA Live, Tiktok Live og Amazon Live kynni vörur í beinum útsendingum á vefnum oft fyrir atbeina áhrifavalda eða frægðarfólks sem svari spurningum frá þeim sem fylgjast með.

Stutt á takka fyrir makríl

Í Suður-Kóreu hafa stórir aðilar sem ekki tilheyra hinum hefðbundnu söluleiðum treyst sig í sessi sem mikilvægir frumkvöðlar í þessari rafrænu söluþróun. Fyrirtækið GS Shop er til að mynda með stóra, rafræna verslunarmiðstöð, heimakaup og verslun í tengslum við beinar útsendingar þar sem makríll er kynntur og hægt er að kaupa hann með því að styðja á takka.

Rannsókn leiðir í ljós að um það bil fjórðungur alls makríls sem kemur frá Noregi er seldur á þennan hátt í Suður-Kóreu. Reynslan er sögð hafa sýnt að um sé að ræða áhrifamikla leið til að ná til nýrra viðskiptavina   og viðhalda áhuga á makríl í SuðurKóreu, sérstaklega meðal yngri kynslóðarinnar.

Skjót heimsendingarþjónusta

Margar vefsölur bjóða heimsendingu næsta dag sé vara pöntuð fyrir miðnætti. Þessi snögga þjónusta er fyrst og fremst í boði í höfuðborginni Seúl og úthverfum hennar, þar sem um helmingur þjóðarinnar býr. Þessi þjónusta er að breiðast smátt og smátt um landið. Sumir, eins og matvöruöppin Bedale Minjuk og Yogiyo, bjóða heimsendingu á um hálftíma frá klukkan níu að morgni til miðnættis.

Margir voru áður tortryggnir á að kaupa sjávarafurðir á vefnum. Var það sérstaklega vegna áhyggna um að varan væri ekki fersk en með hinni snöggu þjónustu er rafræni markaðurinn í vexti.

Dæmi um velgengni á þessu sviði er Korea Pelagic sem hefur tekist að selja beinlausan makríl til kóreskra fjölskyldna. Með því að vera ekki með neinar hefðbundnar verslanir og veðja algjörlega á vefsölu hefur fyrirtækið náð mjög góðum árangri með sterka stöðu á markaðnum.

Norðmenn spenntir

„Okkur í Norska sjávarafurðaráðinu finnst netverslunin í Suður-Kóreu vera spennandi þróun. Fyrir hönd greinarinnar höfum við stigið inn í rafrænar söluleiðir og verslun í beinum útsendingum,“ segir í umfjöllun ráðsins.

Fram kemur að í gegnum rafrænar og gagnvirkar markaðsherferðir hafi Norska sjávarafurðaráðið haft nálega 30 milljón sýningar í Suður-Kóreu. Áfram verði haldið á sömu braut og búist sé við að enn betri árangur náist. Hafið sé samstarf með aðila á þessu sviði til að vera með fleiri beinar útsendingar á vefnum til að kynna norskar sjávarfurðir.

Reynsla sem nýtist víðar

„Þessu til viðbótar störfum við með áhrifavöldum, til dæmis með kóresku Youtube stjörnunni Jimin. Það er skemmtilegt að meira en 1,6 milljónir Kóreumanna hafa séð vídeó með fiski-áhrifavaldi um norskan makríl,“ segir Norska sjávarafurðaráðið enn fremur um umsvifin.

Þá segir að óhætt sé að fullyrða að rafræna byltingin í sölu á sjávarfangi í Suður-Kóreu hafi tekið skref í rétta átt. Í gegnum þessa leið fái norskur makríll meira pláss á matarborði Kóreubúa. Þessi þróun sé dæmi um hvernig netvæðingin eigi þátt í að styrkja sölusambönd milli landa, auka neyslu og skapa ný viðskiptatækifæri. Norðmenn gætu einnig nýtt þessa reynslu til að ná árangri á öðrum mörkum.