Í leiðara Fiskeribladet er hvatt til þess að þjóðir sem stunda makrílveiðar semji um skiptingu makrílkvóta í takt við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, og að samninganefndir loki sig af og hverfi ekki af fundi fyrr en niðurstaða er fundin. Í leiðaranum eru norsk stjórnvöld hvött til þess að eiga frumkvæðið og sem stærsta makrílveiðiþjóðin beri hún ábyrgð á því að samkomulag náist.

ICES mælir með að dregið verði verulega úr veiðum á makríl á næsta ári. Á yfirstandandi ári er ráðgjöf ICES 739.000 tonn en ráðið mælir með að heildarafli fari ekki yfir 577.000 tonn á næsta ári sem er 22% samdráttur frá fyrri ráðgjöf. Vísindamenn telja að hrygningarstofni makríls sé ógnað með ofveiði og óhjákvæmilegt sé að draga úr veiðunum svo þær verði sjálfbærar. Staðan sé grafalvarleg og hana megi rekja til þess að ekki hefur náðst samkomulag milli makrílveiðiþjóðanna um veiðarnar í mörg ár. Leiðarahöfundur Fiskeribladet segir mikilvægt að gengið verði frá bindandi samkomulagi milli makrílveiðiþjóðanna.

Einhliða kvótar

Nýlega gaf ICES út ráðgjöf um makrílveiðar fyrir árið 2025 þar sem mælt er með að veiðin fari ekki yfir 577.000 tonn sem er 40% minna en það sem sennilega verður veitt í heildina á þessu ári. Fiskeribladet segir að verði farið að ráðum ICES verði það álíka áfall fyrir sjávarútvegsfyrirtækin í Noregi og niðurskurðurinn í þorskheimildum. Staðan er þó ólík að því leyti að fyrirtækin hafi sjálf komið sér í þessa stöðu með ofveiði á makríl ár eftir ár.

Um árabil hafa makrílveiðarnar verið í uppnámi. Norðmenn, Færeyingar, Íslendingar, ESB og Bretar (eftir Brexit) hafa ekki náð samkomulagi um sameiginlegan makrílsamning. Þess í stað hafa þjóðirnar einhliða sett sér kvóta sem hefur leitt til þess að mun meira hefur verið veitt en ráðgjöf ICES mælir fyrir um.

Ísland utan samkomulags

Árið 2014 tókst Noregi, ESB og Færeyjum að ná samkomulagi. Í framhaldinu var gerður rammasamningur til fimm ára um veiðistjórnun á makríl sem árið 2018 var framlengdur til ársins 2020. Ísland hefur alltaf kosið að standa utan þessa samkomulags og deilurnar hafa harðnað enn frekar eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Upp frá því hafa átökin fyrst og fremst verið á milli Noregs og ESB sem telur að Norðmenn hafi með óábyrgum hætti aukið hlut sinn í veiðunum.

Eftir fjölda funda náðu Noregur og Bretland saman um samning á síðasta ári og á þessu ári urðu Færeyingar einnig aðilar að samningnum. En sem fyrr standa Ísland, Grænland og ESB utan við samkomulag þessara ríkja. Leiðarahöfundur segir að afleiðingar þessa alls séu þær að makrílveiðar séu langt umfram það sem ráðgjöf ICES mælir fyrir um og það hafi leitt til hömlulausrar ofveiði. Hið sama eigi við um aðrar uppsjávartegundir í deilistofnum. Ráðgjöf ICES fyrir árið 2023 var 782.000 tonn en heildaraflinn nam ríflega 1,1 milljón tonnum sem er 47% umfram ráðgjöf. Allt frá árinu 2010 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 9-86% á ári og að meðaltali 40%.

Leiðarahöfundur Fiskeribladet segir að deilan leysist ekki nema aðilar setjist við samningaborðið og yfirgefi ekki herbergið fyrr en undirritaður samningur liggi fyrir. Allir þurfi að láta af ítrustu kröfum, einnig Norðmenn. „Í ljósi þess að Norðmenn eru stærsta makrílveiðiþjóðin bera þeir ábyrgð á því samningar náist. Viðhorf okkar sem bera merki um þrjósku og stífni, skila litlum árangri. Áframhaldandi átök gætu leitt til algjörs hruns í makrílstofninum sem myndi bitna hart á norskum sjómönnum. Það er því löngu tímabært að snúa aftur á byrjunarreit með autt blað, sýna hófsemi og nærgætni. Það hagnast enginn á áframhaldandi ofveiði.“

Ráðgjöf ICES fyrir yfirstandandi ár í makríl var, sem fyrr segir 739.000 tonn. Íslensk stjórnvöld úthlutuðu til íslenskra útgerða rúmlega 111.000 tonnum og með sérstakri úthlutun og færslu á aflaheimildum milli ára nam aflamarkið tæpum 131.000 tonnum. Á makrílvertíðinni sem lauk í síðasta mánuði veiddust tæplega 88.000 tonn og óveidd eru rúm 43.000 tonn.