Nýleg rannsókn sem náði til 14 villtra fisktegunda við Noreg á vegum norsku hafrannsóknastofnunarinnar leiddi í ljós að stærð fisks, fituinnihald ásamt veiðisvæði eru afgerandi þættir fyrir næringarinnihald og magni óæskulegra efna. Rannsóknin tekur mið af fiski sem veiðist við Noreg.
Niðurstöðurnar voru mismunandi eftir fisktegundum en sameiginlegt með þeim öllum var að eftir því sem fiskurinn er stærri er magn óæskilegra efna meira.
15.000 fiskar skoðaðir
Alls voru skoðaðir yfir 15.000 fiskar í rannsókninni. Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að margir þættir hafi áhrif á efnainnihald í fiskholdinu. Sá þáttur sem hafði hve mest áhrif var stærð fiskanna. Stóru fiskarnir voru almennt með meira magn kvikasilfurs í fiskholdinu.
Á sama tíma var minna af nauðsynlegum næringarefnum eins og kalki og magnesíum sem líkami manna þarf á að halda í tilteknu magni. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að minni fiskur gæti verið öruggari og betri uppspretta nauðsynlegra næringarefna en stærri fiskur.
Það skiptir einnig máli hvað varðar innihaldsefni hvar fiskurinn heldur sig, bæði þegar kemur að næringarefnum og óæskilegum efnum. „Við sáum að styrkur kvikasilfurs, selens og sinks jókst í flestum tegundum frá norðri til suðurs í Atlantshafi, frá Barentshafi í norðri til Skagerrak í suðri,“ segir haffræðingurinn Bente M. Nilsen.
Fylgni milli fituinnihalds og kvikasilfurs
Vísindamennirnir fundu einnig fylgni milli fituinnihalds og kvikasilfursmagns í feitum og hálffeitum fisktegundum. „Eftir því sem fituinnihald í fiskinum var lægra var meira kvikasilfur í fiskflakinu. Við fundum líka svipaða fylgni milli fituinnihalds og magns kalsíums og járns í sumum þessara tegunda. Hvað varðar innihald fosfórs og arseniks var þessu öfugt farið. Þegar fituinnihaldið var lægra var einnig minna magn þessara efna,“ segir Nilsen. Aðrir umhverfisþættir eins og sjávarhiti og selta höfðu minni áhrif á næringarinnihald fisks en stærð hans.
Þekking á því hvað hefur áhrif á næringarefni og óæskileg efni í fiski getur stuðlað að betri nýtingu fiskiauðlindarinnar. Með því að borða þann fisk sem er „ákjósanlegur“ er hægt að fá meiri næringu úr villtum fiski. Þetta er mikilvægt með tilliti til þess að bæta næringarefnainntöku almennings, sérstaklega í ljósi þess að skortur á næringarefnum er áskorun í mörgum löndum um allan heim,“ segir Nilson.