Ísfisktogarinn Vestmannaey VE kom til löndunar í Eyjum á þriðjudaginn en landað var úr skipinu í gær að því er segir á vef Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra.
„Við fórum út á sunnudag og komum inn með smekkfullt skip á þriðjudag. Þetta var virkilega flottur túr. Við fórum rakleiðis á Pétursey og fylltum skipið af ýsu.
Svo einfalt var það,“ er haft eftir Birgi Þór sem var að fara með Vestmannaey í fyrsta túrinn eftir fimm vikna stopp.
„Eftir þennan túr og að afloknu löngu stoppi er maður ekki alveg búinn að átta sig á stöðunni á miðunum. Ég hef þó á tilfinningunni að akkúrat núna sé heldur minna af þorski en á sama tíma í fyrra. Suðausturlandið kemur væntanlega fljótlega sterkt inn en síldin er heldur seint á ferðinni og það hefur áhrif. Annars eru mörg skip stopp núna og ekki álag á veiðistöðunum,“ segir Birgir Þór áfram á vef Síldarvinnslunnar.
„Maður vonar bara að þróunin verði jákvæð og engin ástæða til að ætla annað. Við munum halda til veiða á ný í dag og þá verður stefnan sett á karfamið. Líklega verður farið vestur á Fjöll eða í Skerjadýpið.”