Það var verið að ljúka við fyrri löndun úr Auði Vésteins GK, línubát Einhamars í Grindvík, þegar blaðamaður átti leið um höfnina. Komin voru á land á fimmta tug kara eða nálægt 14 tonn af vænum rígaþorski og menn að drífa sig út aftur til að sækja restina úr lögninni. Ölver Guðnason skipstjóri sagði ekki langt að sækja fiskinn að þessu sinni, einungis í um tíu mínútna siglingu út úr höfn.

„Við drógum bara helminginn og ákveðum þá að landa. Við hefðum getað troðið meiru í bátinn en það var bara óþarfi. Það var alveg fyrirsjáanlegt að við þyrftum að millilanda og við vorum við veiðar hérna rétt fyrir utan innsiglinguna

Seinni skammturinn sem var dreginn seinnipartinn í gær reyndist svo vera um 17 tonn. Þessi dagsróður gerði því um 31 tonn og höfðu sumir á orði að þeir myndu ekki eftir annarri eins veiði.

Ölver mundi það þó vel. „Við tókum reyndar eina lögn við Vestmannaeyjar þegar við vorum að koma að austan. Þar náðum við um 31,5 tonnum. Þessir bátar hafa alveg verið að taka svona mikið,” segir Ölver.

Fiskur út um allan sjó

Hann segir kvótastöðuna dapra eins og hjá öðrum. Nánast allt þetta fiskveiðiári hafi menn verið við þetta einungis á hálfum krafti. Nú séu komnar enn meiri hömlur á veiðarnar. Búið sé að setja skipstjórakvóta á bátana sem þýðir að hvor skipstjóri má ekki taka nema 60 tonn í mánuði. Auður Vésteins má þannig ekki taka meira en 120 tonn af þorski á mánuði. Og þegar aflabrögð eru eins og þau hafa verið er það bara nokkra daga veiði.

Það var stutt stopp eftir millilöndun því það þurfti að ná í restina, 17 tonn.
Það var stutt stopp eftir millilöndun því það þurfti að ná í restina, 17 tonn.
© Guðjón Guðmundsson ([email protected])

„Þetta er auðvitað algjörlega glatað. Og ég bara skil þetta ekki alveg miðað við hve ofboðslega er mikið af fiski út um allt. Það virðist vera sama hvar menn dýfa niður veiðarfæri, það fylla sig allir. Þetta er bara hreinn þorskur og það er nóg af honum.”