„Svo virðist vera að hinn mikli þrýstingur sem Ísfélagið hefur beitt sveitarfélaginu í málinu, með tilheyrandi flýtimeðferð og afgreiðslu meirihluta sveitarstjórnar á útgáfu framkvæmdaleyfis á óauglýstu aðal- og deiliskipulagi hafnarsvæðisins, sé að koma í bakið á stjórnendum sveitarfélagsins nú þar þeir sjá sig knúna til þess að halda hér í dag aukafund til að afgreiða aðalskipulagsbreytingu vegna málsins,“ segir í bókun sem þrír fulltrúar L-lista lögðu fram á aukafundinum.

Ítrekanir á báða bóga

Eins og fram kom hjá Fiskifréttum í febrúar hefur Ísfélagið ýmis áform um uppbyggingu og aukin umsvif á Þórshöfn.

Segist minnihlutinn frá upphafi ítrekað hafa gert athugasemdir við vinnubrögð og stjórnsýslu stjórnenda sveitarfélagsins í málinu. Frá því framkvæmdaleyfi fyrir Ísfélagið hafi verið samþykkt hafi oddviti og sveitarstjóra Langanesbyggðar ítrekað sagt það rúmast innan gildandi aðalskipulags og vitnað í skipulagsfulltrúa máli sínu til stuðnings.

Ólíðandi og óboðlegt

„Þrátt fyrir allt þetta tal stjórnenda sveitarfélagsins kemur á daginn að það þarf að fara í aðalskipulagsbreytingar samhliða nýju deiliskipulagi. Vinnubrögð af þessu taki eru með öllu óboðleg og ólíðandi og fulltrúum meirihluta ekki sæmandi,“ segja fulltrúar minnihlutans sem kveður meirihluta sveitarstjórnar halda stjórnlaust áfram í málinu með þeim afleiðingum að skaði getur hlotist af á síðari stigum málsins.

„Staðreyndir málsins tala sínu máli og sannar þessi aukafundur hér í dag að enn og aftur ætlar meirihlutinn að redda sér fyrir horn með því að leiðrétta mistök sín í ferlinu eftir á,“ bókaði minnihlutinn.

Ekki hægt að beita þrýstingi

Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langnesbyggðar. Mynd/Aðsend
Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langnesbyggðar. Mynd/Aðsend

Fiskifréttir báru bókunina undir Björn Sigurð Lárusson sveitarstjóra og spurði hvort Ísfélagið væri að beita Langanesbyggð óeðlilegum þrýstingi. Hann hafnar því.

„Þær framkvæmdir sem nú er verið að vinna í rúmast innan gildandi aðalskipulags. Það er, dýpkun hafnarinnar og fylling við höfnina sem verður um 4.200 fermetrar,“ segir Björn. Ísfélagið leggi áherslu á að geta hafið framkvæmdir á þessu ári við þær byggingar sem félagið hyggist reisa, meðal annars á hluta fyllingarinnar.Þær séu byggðar á tillögum í breytingum á aðal- og deiliskipulagi.

„Allir verða þó að bíða eftir að Skipulagsstofnun afgreiði málið og það vita forráðamenn Ísfélagsins og því ekki hægt að þrýsta á sveitarfélagið í því efni,“ undirstrikar Björn.

Var fullvissaður

Aðal – og deiliskipulag var að sögn Björns samþykkt í skipulagsnefnd með athugasemdum sem voru uppfærðar og sendar Skipulagsstofnun 6. maí. Stofnunin taki mánuð til að fara yfir aðalskipulagið sem síðan fari í sex vikna auglýsingarferli. Það sé ferlið sem bæði Ísfélagsmenn og sveitarfélagið viti um.

„Hafi einhver gert mistök í ferlinu þá skrifast þau á sveitarstjóra að hafa ekki lagt fram bókun um samþykkt aðalskipulags áður en það var sent Skipulagsstofnun. Skipulagið var í vinnslu hjá stofnuninni og kallað var til aukafundar þar sem tillaga að aðalskipulagi var samþykkt. Sveitarstjóri var fullvissaður um að þetta atriði hefði ekki áhrif á afgreiðslutíma aðalskipulagsins hjá Skipulagsstofnun,“ svarar Björn síðan spurður hvort rétt sé hjá minnihlutanum að meirihluti sveitarstjórnar hafi gert mistök og leiðrétt þau á aukafundi.

Enginn skaði skeður

Björn hafnar því að mistök hafi verið gerð sem geti valdið sveitarfélaginu skaða. Hægt sé að gera athugasemdir þegar skipulagið sé í fyrrnefndu auglýsingaferli.

„Hugsanleg mistök geta orðið ef sveitarfélagið tekur ekki til efnislegrar meðferðar þær athugasemdir sem berst eftir að auglýsingaferli lýkur. Það er því enginn skaði skeður því allir geta gert athugasemdir í auglýsingaferlinu og það er undir skipulagsnefnd og sveitarstjórn komið hvort þær verða teknar til greina,“ segir sveitarstjóri Langanesbyggðar.