Minningarstund var haldin í gær um þá sem fórust í snjóflóðunum í Neskaupstað 20. desember árið 1974 og þá aðra sem hafa farist í störfum hjá Síldarvinnslunni. Áformað var að minningarstundin yrði við minningareitinn á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar en vegna veðurs þurfti að flytja athöfnina inn í húsakynni Hótel Hildibrands.
Minningarstundin fór vel fram og var ljúf í alla staði. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, bauð gesti velkomna og kynnti dagskrána. Guðmundur R. Gíslason söng við undirleik Jóns Hilmars Kárasonar og prestarnir Benjamín Hrafn Böðvarsson og Bryndís Böðvarsdóttir fluttu ljóð og hugleiðingu.
Þegar dagskrá minningarstundarinnar lauk var boðið upp á síld frá níu framleiðendum og gátu gestir greitt atkvæði um hvaða síld væri best. Þar fyrir utan bauð Hótel Hildibrand upp á fjölbreytta síldarveislu. Nutu menn síldarinnar til hins ítrasta.