„Þetta samkomulag er næsta rökrétta skrefið í uppbyggingu hafnarþjónustu í Þorlákshöfn og með þessu erum við að tryggja enn betur hlutverk hafnarinnar sem lykilþáttar í blómlegu atvinnulífi hér á Suðurlandi,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfus.
Þetta er haft eftir Elliða í fréttatilkynningu vegna undirritunar viljayfirlýsingar flutningafyrirtækisins Cargow Thorship og Ölfus um frekari uppbyggingu á hafnarsvæðinu og áætlunarsiglingar Cargow Thorship til Þorlákshafnar sem sagðar eru munu hefjast síðar á árinu.
Fyrsta flokks aðstaða fyrir afgreiðslu vöruflutningaskipa og gámaþjónustu
„Með samkomulaginu skuldbindur sveitarfélagið sig til þess að skapa við höfnina fyrsta flokks aðstöðu fyrir afgreiðslu vöruflutningaskipa og gámaþjónustu. Cargow Thorship skuldbindur sig til þess að nota aðstöðuna sem meginhöfn á Íslandi á nýjum siglingaleiðum sínum á milli Íslands og meginlands Evrópu. Ný og aukin siglingaáætlun verður kynnt á komandi mánuðum,“ segir í fréttatilkynningunni.
Fulltrúar minnihlutans í framkvæmda- og hafnarnefnd Ölfus gerðu á fundi nefndarinnar í gær athugasemdir við að málið hafi fyrst verið kynnt þeim í upphafi þessarar viku og samþykktu ekki viljayfirlýsinguna.
Eigi að vera á verulega umdeildri landfyllingu
„Þó svo að verkefnið sé í eðli sínu áhugavert þá er sú staðsetning sem verkefninu er ætlað ofan í útivistarsvæði og íbúabyggð sem bæði kemur til með að hafa truflandi áhrif á íbúa og þrengja að starfseminni. Viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að starfseminni verði úthlutað athafnasvæði ofan á fyrirhugaðri landfyllingu sem er verulega umdeild hugmynd og ekki liggur framkvæmdaleyfi fyrir. Við getum því ekki samþykkt þessa viljayfirlýsingu. Landfyllingin er hins vegar ekki forsenda þess að af verkefninu verði og því vonum við að verkefninu verði fundinn staður við höfnina,“ bókuðu fulltrúar minnihlutans á fundi framkvæmda- og hafnarnefndar.
Cargow Thorship vildi trúnað
Meirihlutinn í nefndinni svaraði því til að vinnulagið hafi öðru fremur mótast af beiðni Cargow Thorship um að ríkur trúnaður væri á meðan málið væri eingöngu á viðræðustigi.
„Þegar tekin var ákvörðun um að færa málið yfir í undirbúning samninga gerðar voru allir nefndarmenn upplýstir,“ bókaði meirihlutinn sem kveður stækkun hafnarinnar til suðurs vera algera forsenda fyrir frekari þróun hennar.
Ósammála áherslu á brimbrettaiðkun umfram hefðbundna hafnarstarfsemi
„Eins og nú kemur í ljós skapar sú framkvæmd ómæld tækifæri fyrir samfélagið og því ber að fagna,“ segir í bókuninni þar sem bent var á að eins og nánast allar hafnir á Íslandi sé Þorlákshöfn nærliggjandi bæði íbúabyggð og útivistarsvæðum. Annað útiloki ekki hitt. „Áhersla minnihlutans á brimbrettaiðkun umfram hefðbundna hafnarstarfsemi við Suðurvarargarð er andstæð afstöðu meirihluta hafnarnefndar.“
Stórt skref segir forstjórinn
Haft er eftir Stefáni Héðni Stefánssyni, forstjóra Cargow Thorship, í fyrrnefndri fréttatilkynningu að fyrirtækið stefni á verulega stækkun starfsemi sinnar og með því undirstrika þann ásetning að gera Þorlákshöfn að sinni meginhöfn í gámaflutningum á Íslandi. „Siglingaleiðin þangað er styttri en inn til Reykjavíkur og samgöngur til og frá höfninni eru góðar. Samkomulagið er stórt skref í uppbyggingu og þróun félagsins og væntum við góðs ávinnings af því fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Stefán.
Í fréttatilkynningunni er markmið sveitarfélagsins með samkomulaginu sagt vera að efla Þorlákshöfn enn frekar sem vöruflutningahöfn fyrir sjóflutninga til og frá landinu. Ölfus telji sig sérstaklega vel í sveit sett á þessu sviði.
Þorlákshöfn er þungamiðjan
„Cargow Thorship hefur sinnt áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun í u.þ.b. sautján ár. Félagið hefur vaxið hratt í gegnum árin og að undanförnu hefur ýmsum möguleikum til umfangsmikillar frekari stækkunar verið velt upp. Niðurstaðan varð sú að gera Þorlákshöfn að þungamiðju flutningastarfseminnar, bæði vegna hagstæðrar staðstetningar og möguleika á áframhaldandi vexti þegar til lengri tíma er litið,“ segir í fréttatilkynningunni vegna viljayfirlýsingarinnar. Þar er einnig haft eftir Elliða bæjarstjórar að verðmætasköpun sé forsenda velferðar.
Höfnin beintengd við vöxt og velferð
„Aukin starfsemi hafnarinnar hefur ætíð verið beintengd við vöxt og velferð samfélagsins hér í Þorláskhöfn og því er frábært að fá þetta trausta fyrirtæki Cargow Thorship til þess að hefja áætlunarsiglingar af þessari stærðargráðu hingað. Ég er viss um að samstarfið verður farsælt og efast ekki um að félagið muni festa enn frekari rætur í sveitarfélaginu á komandi árum,“ segir Elliði Vignisson.