Áform eru uppi um ræktunarstöð fyrir bláskeljarlirfur á Reykjanesi. Í stöðinni eiga jafnframt að fara fram kynbætur sem miða að því að stytta til muna ræktunartíma á bláskel ásamt þróun á tækni fyrir áframeldið. Júlíus B. Kristinsson, eigandi Silfurgen ehf., segir stóraukið eldi skeldýra, þar á meðal bláskelja, svar við gríðarlegri eftirspurnaraukningu á kjöti og sjávarafurðum á ári hverju á heimsvísu með tilheyrandi viðbótarálagi á móður jörðu.

Júlíus, t.v., ásamt hollenskum kollega við ræktun á bláskelslifur.
Júlíus, t.v., ásamt hollenskum kollega við ræktun á bláskelslifur.

Júlíus tók þátt í fyrstu bylgju fiskeldis á Íslandi og átti m.a. frumkvæði að stofnun Stofnfisks, nú Benchmark Genetics. Hann er doktor í lífeðlisfræði laxa og með viðskipta- og rekstrarfræðimenntun. Hann var einn af stofnendum ORF Líftækni og tók þátt í tækniþróun félagsins í tengslum við stofnfrumuræktun á kjöti. Undanfarin misseri hefur Júlíus unnið að tækniþróun í skelrækt innan fyrirtækis síns, Silfurgen ehf og fyrirtækisins Marbot ehf., sem hann stofnaði ásamt öðrum. Tækniþróunin hefur hlotið styrki úr ýmsum áttum.

Próteinkrísan

Silfurgen vinnur að uppbyggingu lirfuræktunarstöðvar fyrir skelfisk sem byggir á svipuðu viðskiptalíkani og Stofnfiskur gerði á sínum tíma, nema hvað Stofnfiskur, nú Benchmark Genetics, framleiðir kynbætt laxahrogn en Silfurgen mun helga sig framleiðslu kynbættra bláskeljarlirfa. Marbot mun þróa sérhæfða tækni til bláskeljaræktar. Miðað er að því að byggja Silfurgen og Marbot upp sem arðbær tæknifyrirtæki sem stuðla að umbreytingu bláskeljaræktarinnar í arðbæra vaxandi atvinnugrein. Júlíus kynnti sér heimsframleiðslu á matvælum ofan í kjölinn í tengslum við framangreind verkefni og hefur fylgst grannt með þróun og þeim nánast óyfirstíganlegu áskorunum sem framleiðslan stendur frammi fyrir eins og hún hefur verið stunduð til þessa. Í þessu samhengi nefnir hann það sem hann kallar „próteinkrísuna“.

„Í gögnum frá Matvælastofnunar Sameinuðuþjóðanna, FAO, og öðrum sá ég, mér til mikillar hrellingar, að heimsframleiðsla á próteinmatvælum er kominn á mjög alvarlegan stað. Viðbrögðin eru þau að þróa vistvænni aðferðir til að þróa próteinrík matvæli. Stofnfrumuræktun, sem nýtist einnig til stofnfrumuframleiðslu á fiski, er hluti af því. Próteinkrísan felst í því að 50% af öllu byggilegu landi heimsins hefur verið tekið undir landbúnað nú þegar. Það sem kom mér á óvart er að 77% af því landi er ekki notað til að búa til matvæli heldur fóður fyrir alidýr. En þau dýr sem nýta þetta fóður standa einungis undir 18% af matvælum heimsins í kaloríum talið. Nýtingin er sérstaklega lítil í jórturdýrum sem nýtt eru til nautakjöts- og lambakjötsframleiðslu,“ segir Júlíus.

Hann bendir á að 50% af matvælum heims eru framleidd með tilbúnum áburði. Flestir eru sammála um að þetta er ekki sjálfbært og að fosfatnámur heimsins eru endanlegar og verða jafnvel uppurnar innan 100 ára. Auk þess má rekja 25 og jafnvel 30% af losun gróðurhúsalofttegunda til matvælaframleiðslu, meirihluta til dýraeldis.

Próteinumskiptin

Andsvar við próteinkrísunni sé próteinumskipti sem felur í sér þróun nýrra aðferða til að framleiða próteinrík matvæli. Gríðarlegir möguleikar liggja í þróun skeldýraræktar, ekki síst í hafinu í kringum Ísland. Skeldýr þurfa ekki tilbúið fóður heldur nærast á náttúrulegu þörungasvifi í hafinu. Gnótt er af því í hafinu í kringum Ísland og kjöraðstæður í raun til skeldýraræktar. Hafið meira að segja sér um aðflutninga á fóðrinu til skelræktarlínanna í sjá þar sem Golfstraumurinn kringum Ísland ferðast með 5 – 10 km. hraða á sólarhring.

„Árleg aukning í eftirspurn á heimsvísu eftir kjöti er um 3 og sömuleiðis 3-6% fyrir sjávarafurðir. Árleg eftirspurnaraukning eftir kjöti er því 5-10 milljónir tonna og sama eftirspurnaraukning eftir sjávarafurðum. Það er engin leið til þess að anna þessari eftirspurnaraukningu nema ganga enn frekar á jörðina með alvarlegum umhverfislegum skaða. Ástæða þessarar eftirspurnaraukningar er fólksfjölgun en ekki síður sú staðreynd að margar þjóðir, m.a. Asíuþjóðir, hafa efnast og neysla þeirra á dýrapróteinum aukist. Tölur frá Kína eru sérstaklega sláandi í þessum efnum. Kínverjar voru að mestu leyti plöntuætur fyrir um 30 árum en nú eru þeir langstærstu kjötsframleiðendur heims og nautakjötsneysla hvergi meiri.“

Júlíus B. Kristinsson. Mynd/gugu
Júlíus B. Kristinsson. Mynd/gugu
© Guðjón Guðmundsson (.)

Mælikvarðarnir

Í ljósi alls þessa lagði Júlíus af stað í sína vegferð með nokkra mælikvarða sem framleiðsla á öðrum próteingjöfum yrði að uppfylla. Próteininnihaldið verður að vera meira en 50% af þurrefni, varan verður að höfða til neytenda, land til ræktunar verður að vera í algjöru lágmarki, engan tilbúinn áburð þarf til framleiðslunnar og kolefnisfótsporið verður að vera mjög lágt. Framleiðsluaðferðin þarf að vera uppskalanleg og hún þarf að vera arðbær.

Júlíus skoðaði með kerfisbundnum hætti nokkrar leiðir sem nú er helst eru taldar skipta máli í þeim próteinumskiptum sem verða að fara fram. Sú leið sem uppfyllti best mælikvarðana hér að ofan, er að hans mati skeldýrarækt..

Að fenginni niðurstöðunni ákvað Júlíus í framhaldinu að beina sjónum alfarið að bláskeljarræktun sem hefð er fyrir á Íslandi og víða um heim. Hann segir að stöðnun í greininni sem markist af gömlum framleiðsluhefðum. Umbreyta þurfi greininni í grundvallaratriðum með tækniframförum. Þar kemur til kasta tæknifyrirtækjanna sem Júlíus hefur stofnað.

Kynbætur á skeldýrum hafa verið stundaðar í nokkur ár og tækniþróun á því sviði hefur verið ör. Júlíus hefur kynnt sér þessar aðferðir í þaula og ætlar að nýta sér þær í verkefni sínu.

„Áhersla verður lögð á ræktun lirfanna. Viðskiptahópurinn verður þeir sem rækta bláskel til manneldis út í sjó. Þar er allur heimurinn markaðssvæðið en mjög auðvelt og ódýrt er að flytja lirfurnar, sem eru mjög fyrirferðalitlar á þessu stigi.“

Júlíus segir að starfsemin verði í 500 fermetra húsnæði til að byrja með og er helst litið til Reykjaness hvað staðsetningu varðar. Sjór til lirfuræktunarinnar verður tekinn úr borholum og stendur nú leit yfir að hentugu húsnæði. Júlíus bindur vonir við að verkefnið hefjist fyrir alvöru seinni partinn á næsta ári.

3% matvæla byggja frumframleiðslu í sjó

Grunnurinn að allri matvælaframleiðslu í heiminum eru plöntur sem nýta orku sólarinnar. Örþörungar standa undir 91% allrar frumframleiðslu sjávar. Frumframleiðsla á heimsvísu er umtalsvert meiri í sjó en í öllu graslendi og akurlendi. Matvæli sem framleidd eru úr plöntum á landi standa engu að síður undir 97% af matvælum heimsins. Einungis 3% matvæla heimsins byggja á frumframleiðslu í sjó.

„Skýringin á þessum mikla mun er sú að á landi er stuðst er við aðferðir akuryrkju en á sama tíma er mannkynið enn á veiðimannastigi á sjó. Frumframleiðsla örþörunga í sjó er gríðarlega stór auðlind sem nýta mætti mun betur en nú er gert með því að sía örþörungana og breyta þeim í eftirsótt matvæli. Snilldin er sú að vísindin þurfa ekki að finna upp síara því náttúran hefur séð til þess. Skeldýrin eru þessir afkastamiklu síarar sem umbreyta örþörungum í þessar frábæru, próteinríku afurðir sem skeldýrakjöt er. Tækin eru því til og það þarf einungis að beita þeim,“ segir Júlíus.

90% af lífmassa sjávar

Í hafinu í kringum Ísland er frumframleiðsla plantna (örþörunga og þara) 100 sinnum meiri en gerist meðal plantna á landi. Fæðupíramídi sjávar skiptist í að minnsta kosti fimm þrep og það neðsta í keðjunni er plöntusvif sem er um 90% af öllum lífmassa sjávar. Skeldýr, þ.m.t. bláskel, er í næsta þrepi fyrir ofan plöntusvifið, nærast beint á því. Skelrækt er nánast eina mögulega vistvæna og arðbæra leiðin til að sía plöntusvif sjávar og umbreyta því yfir í próteinrík, heilnæm og eftirsótt matvæli. Júlíus segir gríðarleg tækifæri liggja í bláskeljarækt við Ísland. Sem dæmi má nefna að innan við 1% af öllu plöntusvifi í efnahagslögsögu Íslands dygði til framleiðslu á einni milljón tonna af bláskel á ári. Verðmæti þeirrar framleiðslu samsvaraði útflutningsverðmætum allra sjávarafurða á Íslandi.

„Ég tel að það sama muni gerast í bláskeljaræktun hérlendis eins og í öðrum greinum, eins og t.d. laxeldi. Greinin mun hefjast í litlum fyrirtækjum sem síðan munu sameinast í stærri fyrirtæki. Þessi þróun er þegar hafin í bláskeljarækt í Kanada, Nýja-Sjálandi og Chile. Líklegt er að þegar fram líða stundir muni fyrirtæki í þessari grein framleiði allt að 50.000 tonnum af bláskel á ári á 5-10 ræktunarsvæðum. Hver stöð gæti framleitt um 10.000 tonn, sem þyrfti um hálfan milljarð skelja í ræktun á hverjum tíma. Í fullri virkni væru þær að dæla í gegnum sig þörungaríkum sjó sem jafngildir meðalrennsli Ölfusár.“