„Þetta er mikill léttir,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess, um þær fréttir að Vegagerðin sé staðráðin í að tryggja að Hornafjarðarós verði til framtíðar fær stórum sem smáum fiskiskipum.
Á aðalfundi Skinneyjar-Þinganess 19. apríl síðastliðinn kom fram „að stjórn félagsins hefði ákveðið að taka til endurskoðunar áætlanir Skinneyjar-Þinganess um fjárfestingar í vinnslulínum fyrir uppsjávarfisk í ljósi þeirra frétta að hætt verði við fyrirhugaða dýpkun á Grynnslunum í Hornafjarðarósi.“
Að sögn Fannars Gíslasonar, forstöðumanns hafnadeildar Vegagerðarinnar, urðu þessi tíðindi af aðalfundinum til þess að ríkið rumskaði.
Allt fór á fullt
„Vegagerðin var þá með mjög svo miklar rannsóknir í gangi um Grynnslin, þ.e. hvernig megi bæta þau. En þetta gerði það að verkun að málið fékk meiri fókus og meiri pressu. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta fyrirtæki er ansi mikilvægt fyrir staðinn. Ríkið mun tryggja að fyrirtækið geti vaxið á þessum stað.“
Nú sé smám saman að skýrast til hvaða ráða verði gripið. Ekki sé búið að fjármagna neitt ennþá en verið er að meta hvað er í boði.
„Líklegast er að það verði einhver viðhaldsdýpkun sem er þá bara eins og við erum að gera í Landeyjarhöfn. Það er það sem við erum að skoða núna.“
Skip verði til taks
Séð verði til þess að dýpkunarskip verði til taks þegar kemur að því að dýpka þurfi höfnina í vetur. Ráðast þurfi í slíkt á vetrartíma, einhvern tímann á tímabilinu frá desember fram í mars.“
Aðstæður þarna eru að sumu leyti svipaðar og í Landeyjarhöfn, en að öðru leyti ekki.
„Dýpkunargluggar eru samt á sama tíma þannig að það er alveg ljóst að sama dýpkunarskipið og verður í Landeyjum mun ekki dæla þarna. Af því annars værum við alltaf að taka skipið frá Hornfirðingum og til Landeyja. En dýpið sem Herjólfur þarf er aðeins minna þannig að þar eru fleiri valmöguleikar um dæluskip.“
Lokast yfir vetrarmánuði
Hann segir yfirleitt ekki hafa verið mikil þörf fyrir að dýpka Hornafjarðarós.
„Grynnslin eru í jafnvægisdýpi núna, sem eru 7-8 metrar þannig að þó svo við gerum ekkert þá geta menn siglt inn á ágætis skipum ef það er lág alda og hár straumur. En þegar allt er í blússandi gangi þarna yfir vetrarmánuðina þá lokast höfnin þegar aldan fer í fjóra metra eða eitthvað. Þeir þurfa þá alltaf að sigla á flóði inn.“
Úr þessu ætlar Vegagerðin sem sagt að bæta, til að byrja væntanlega með því að dýpka ósinn eftir þörfum.
Skinney SF og Þórir SF, tvö af skipum Skinneyjar-Þinganess. FF MYND/Jón Steinar Sæmundsson