Það þótti tíðindum sæta þegar Stormur HF var seldur til Noregs snemmsumars 2023 en skipið hafði þá legið við festar í Reykjavík frá því í desember 2017. Það var útgerðarfélagið Nybonia Hav í Midsund í Noregi sem keypti skipið og gerir það nú til veiða á hrefnu. Í síðasta mánuði hafði það þegar veitt um tíu hrefnur. Á síðasta ári veiddu Norðmenn 507 hrefnur og var kvótinn 1.000 dýr. Hann hefur nú verið aukinn í 1.157 og í ágúst höfðu um 400 hrefnur verið veiddar á árinu.
Stormi, sem nú heitir Midsund, var siglt frá Íslandi til Noregs í maí í fyrra og var nýi eigandinn um borð, Arnt Inge Nygård. Hann er mikill talsmaður hvalveiða og er bjartsýnn á framtíð þeirrar greinar í Noregi. Arnt Inge rekur útgerðina ásamt fjölskyldu sinni og gerir út þrjá báta með strandveiðileyfi og einn netabát auk hrefnuveiðibátsins Midsund.
Vakúmpakkað og fryst um borð
Midsund er um margt byltingarkennt skip og var hið fyrsta í fiskiskipaflota Íslendinga með tvinnaflrás. Skrúfubúnaðurinn er knúinn af rafmótor og rafmagnið er framleitt með dísilvél. Orkunotkunin er sögð helmingi minni en í hefðbundnu skipi af sömu stærð. Auk þess er það með stóra hliðarlúgu og með mikla frystigetu. Í áhöfn eru 10 manns og hrefnuafurðirnar eru skornar um borð, vakúmpakkaðar og frystar. Veiðarnar fara fram úti fyrir strönd Norður-Noregs, nánar tiltekið nærri Honningsvåg.
Arnt Inge er ánægður með nýja bátinn. Í samtali við Fiskeribladet segir hann Midsund hraðskreiðan og snaran í snúningum sem sé mikilvægt við veiðar á hrefnu. Á stjórnborða er hliðarlúga þar sem hrefnan er tekin um borð enda skipið mjög hábyggt. Auk þess hefur verið settur turn í skipið sem er mannaður til að vera á útkikki eftir hrefnu. „Við skynjum að langflestir eru hlynntir hvalveiðum og finnst þær í góðu lagi. Hvalkjöt er einstaklega gott til neyslu og það er sjálfbær próteingjafi,“ segir Arnt Inge.