Á fyrsta ársfjórðungi hafði verð á íslenskum botnfiski hækkað um 20% milli ára. Ekki eru dæmi um jafn mikla hækkun á svo stuttum tíma. Verð á uppsjávarfiski lækkar á sama tíma.

Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Þar kemur fram að næstmesta hækkunin á íslenskum botnfiski var á fjórða ársfjórðungi 2014 en þá nam hækkunin 13,4% milli ára. Ástæða þessarar skörpu hækkunar er að verð á matvöru hefur hækkað hratt í helstu viðskiptalöndunum sem á einnig við um íslenskan fisk, segir þar.

Verð á matfiski

„Þessi mikla verðhækkun á botnfiski hefur þýtt mikla hækkun á verði sjávarafurða í erlendri mynt en botnfiskurinn hefur hátt vægi í hlutfalli við uppsjávarfisk í útflutningi landsins á sjávarafurðum. Nú á fyrsta fjórðungi hafði verð sjávarafurða alls hækkað um 17,5% miðað við sama tímabil í fyrra og skýrist hækkunin öll af hækkun á botnfiski. Verð á uppsjávarfiski lækkaði um 9,1%,“ segir í Hagsjánni.

Verð á matfiski hefur hækkað töluvert að undanförnu líkt og á flestum öðrum matvörum. Eins og víða hefur verið fjallað um má rekja þessa verðhækkun til mikillar hækkunar á hrávörum og matvælaverði, hækkandi flutningskostnaðar og minna framboðs af fiski frá Rússlandi vegna viðskiptaþvingana.

Verðbólga

Matvælaverð hefur hækkað verulega á síðustu mánuðum í helstu viðskiptalöndum Íslands. Í Bandaríkjunum og evruríkjum hefur verð á mat og drykk hækkað yfir 1% milli mánaða á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Í Hagsjánni segir að hækkunin var 10,8% í Bandaríkjunum nú í apríl á 12 mánaða grundvelli og 7,4% í evruríkjum. Bretland er stór markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir en þar hefur verð á mat og drykk hækkað um 6,7% á síðustu 12 mánuðum.

Frá því faraldurinn hófst hefur verið æði misjöfn verðþróun á útfluttum þorskafurðum eftir verkun þeirra. Nú á fyrsta fjórðungi var verð á ferskum þorski 18,1% hærra í erlendri mynt en það var á fyrsta fjórðungi 2020. Landfrystar þorskafurðir höfðu hins vegar hækkað mun minna, eða um 3,8% á tímabilinu, en verð á söltuðum var 4,7% lægra.

Á síðustu 12 mánuðum hefur þróunin verið með þeim hætti að ferskar afurðir hafa hækkað um tæp 18%, landfrystar afurðir hafa lækkað um 4,3% en verð á söltuðum hefur hækkað um 8,1%. Þessi þróun, að verð á ferskum fiski hækki mun meira en á frystum eða söltuðum, nær ansi langt aftur. Þannig hefur verð á ferskum afurðum hækkað um 44% á síðustu 12 árum en einungis um 5,7% á landfrystum afurðum og lækkað um 28% á söltuðum.

Stærstu markaðir

Frakkland er langstærsti markaðurinn fyrir íslenskan ferskan botnfisk hvert rúmlega þriðjungur af útfluttum ferskum botnfiskafurðum hefur farið á síðustu árum. Á fyrsta ársfjórðungi hafði verð á ferskum hækkað um 11,9% í Frakklandi á 12 mánaða grundvelli sé miðað við neysluverðsvísitöluna í Frakklandi. Næststærsti markaðurinn eru Bandaríkin en um 19% af ferskum íslenskum fiski hefur endað þar á síðustu árum. Verðhækkun á ferskum sjávarafurðum samkvæmt bandarísku neysluverðsvísitölunni var sú sama á fyrsta fjórðungi og í Frakklandi, eða 11,9%. Þriðji stærsti markaðurinn er Bretland en þar hefur verð á hvers kyns sjávarafurðum hækkað um 3,6% á fyrsta fjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Verðhækkun milli sömu tímabila í evruríkjum var 8,1%.

„Ljóst er að þessar verðhækkanir á íslenskum sjávarafurðum í erlendri mynt koma sem búbót fyrir sjávarútveginn og hagkerfið í heild. Verði áframhald á hækkun á matvöruverði erlendis mun það styðja við frekari hækkanir á verði íslensks botnfisks,“ er niðurstaða Hagsjárinnar.