Árlega er áætlað að 10 milljónir tonna af hráefni hið minnsta fari forgörðum í fiskvinnslum og fiskeldisstöðvum heimsins. Talið er mikilvægt fyrir hagkerfi alþjóðlegs sjávarútvegs að hámarka nýtingu sjávarafla og verðmæti þeirra afurða sem fara forgörðum.
Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnunni Fish Waste for Profit í síðustu viku, en hún var að venju haldin samhliða Íslensku sjávarútvegssýningunni sem lauk á föstudag. Ráðstefnan hverfist um nýsköpun og nýtingu aukaafurða sjávarfangs, sem er að verða þungamiðjan í alþjóðlegum sjávarútvegi.
90% nýting
Nú er nýtt um 90% af þeim þorski sem veiðist við Íslandsstrendur, þar með talið það sem flokkast undir hliðarafurðir, kemur fram í umfjöllun World Fishing & Aquaculture.
Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís, sagði í sínu erindi að vegna mikillar áherslu á fjárfestingar í menntun, rannsóknum og þróun væri kominn fram á sjónarsviðið stór hópur ungs fólks með ferskar hugmyndir. Þessi hópur hefði gengið til liðs við sjávarútveginn og umbylt honum á seinustu árum og áratugum.
Jónas benti líka á að á sama tíma hefði miklu fjármagni verið varið í að nútímavæða íslenska skipastólinn og því eru færri og skilvirkari skip að veiðum, betur búin til að vinna aflann en fyrrum og það hráefni sem fellur til. Sama hafi gerst í fiskvinnslunni, sem leggi nú ríka áherslu á að þróa og nýta hliðarafurðir sjávarfangs.
„Það eru færri sem starfa í fiskvinnslu heldur en áður var, en áherslan er meiri á hráefnið,” sagði Jónas en lagði áherslu á að hægt væri að ná enn meiri árangri á þessu sviði.
„Allir gera sér nú grein fyrir að það er ekki nóg að einbeita sér eingöngu að fiskflökum, þau eru aðeins 40% af fisknum, og menn geta ekki fleygt 60% af fisknum á brott. Það er ekki sjálfbært og það eru óhagkvæm viðskipti,” sagði Jónas og bætti við á einum stað að þegar er horft tiltölulega stutt aftur í tímann þá hefur verðmæti fiskafla á Íslandi verið þrefaldað þó mun minna magn hráefnis berist á land.
Löngum fargað
Jónas sagði að hægt væri að búa til fjölmargar afurðir úr því hráefni sem löngum hefur verið fargað, og nýir möguleikar séu sífellt að koma til sögunnar. Um mikil verðmæti er um að tefla enda er áætlað að árið 2017 hafi um 72% af þorski verið nýttur en samkvæmt greiningu frá 2021 sé hlutfallið 90%, og er þar meðtalin framleiðsla hliðarafurða.
„Þetta er vitanlega frábært hlutfall, saman borið við það sem gerist annars staðar í heiminum. En það ætti samt að ganga lengra í þessum efnum og leggja meiri áherslu á verðmætin,” sagði Jónas. Hann nefndi í því sambandi karfa, þar sem einungis 35% af fisknum er nýttur til manneldis en afgangurinn er nýttur sem beita eða í framleiðslu fiskimjöls.
„Nýtingin er vissulega 100% en við getum gert betur. Við getum búið til meira af matvælum úr hráefninu og við getum skapað aukin verðmæti með því.”
Nýta þarf höfin
Jónas vék einnig að þeim áskorunum sem mæta heimsbyggðinni með tilliti til fæðuöryggis. Hann minnti á að þó að höf þekji 71% af yfirborði jarðarinnar sé sjávarfang þó aðeins 158 milljónir tonna af þeim 4 milljörðum tonna matvæla sem framleidd eru árlega í heiminum.
„Við erum í raun og veru ekki að nýta höfin nema að litlum hluta,” sagði hann. „Við getum ekki framleitt nægan mat fyrir 10 milljarða jarðarbúa árið 2050 nema að nýta þær auðlindir sem okkur standa til boða – og með því að nýta þær allar til fulls.”